Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur rétt af MDE að fara til Tyrklands

06.09.2020 - 19:00
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsins segir það hafa verið rétta ákvörðun hjá Mannréttindadómstól Evrópu að þiggja boð um að forsetinn dómstólsins, Róbert Spanó, færi í heimsókn til Tyrklands. Tækifærið hafi verið nýtt til að ræða mannréttindi við tyrknesk stjórnvöld.

Heimsókn Róberts til Tyrklands, og móttaka á heiðurdoktorsnafnbót við háskólann í Istanbul, hefur sætt mikilli gagnrýni. Róbert sagði í ræðum í heimsókninni að mannréttindasáttmálinn verndaði akademískt frelsi og tjáningarfrelsi án takmarkana. Engar öfgar viðgengjust samkvæmt sáttmálanum.

„Ég tel það vera eðlilega ákvörðun hjá yfirstjórn Mannréttindadómstóls Evrópu að þiggja boðið til Tyrklands og eiga þer hispurslausar samræður við forseta Tyrklands, Erdogan, um mannréttindi, lýðræði og lög og reglur,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
 
Um heiðursdoktorsnafnbótina segir Rósa Björk að svona heimsóknir geti oft verið umdeildar.  „En ef skilaboðin eru skýr og talað er á skýran hátt um mannréttindi og sömuleiðis vakin athygli á mikilvægi mannréttindadómstóls Evrópu í svona heimsóknum og við svona tækifæri þá tel ég tilganginum náð.“

Rósa Björk segir málið hafa verið rætt óformlega innan Evrópuráðsins og menn hafi skipst þar á skoðunum. „Ég held að svona heimsókn eins og þarna um ræðir eigi alls ekki að verða til þess að draga úr trúverðugleika mannréttindadómstólsins eða ráðsins sjálfs.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV