Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Skiptir ekki máli hvort Jesús sé trans, kona eða karl“

Mynd: RÚV/Þjóðkirkjan / RÚV/Þjóðkirkjan

„Skiptir ekki máli hvort Jesús sé trans, kona eða karl“

06.09.2020 - 12:57

Höfundar

Þjóðkirkjan uppfærði forsíðumynd sína á Facebook fyrir helgi og olli með því nokkru fjaðrafoki. Á myndinni má sjá Jesú kampakátan með sitt síða hár og skegg en einnig vegleg brjóst og andlitsfarða. Pétur G. Markan, samskiptastjóri kirkjunnar, segir myndina fanga samfélagið eins og það er, og fjölbreytileika þess.

Mjög skiptar skoðanir eru um þennan óhefðbundna Jesú og hafa margir tjáð andúð sína á uppátækinu á meðan aðrir fagna. Pétur G. Markan, samskiptastjóri kirkjunnar, ræddi myndbirtinguna og viðbrögðin við henni í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann segir tilganginn með myndinni vera að sýna að kirkjan fagni fjölbreytileikanum „og kannski vinda okkur í umræðuna um að það skipti ekki máli hvort Jesú sé karl eða kona eða hvort hann sé trans. Hann gæti líka verið intersex,“ segir hann. „Það er alls konar sem við sem samfélag búum yfir og við köllum fjölbreytileika.“ Myndefnið segir hann fanga samfélagið eins og það er ásamt að miðla kjarnaboðskap Jesú og kirkjunnar. Jesús geti verið eins og við þekkjum hann best, hárprúður hvítur cis töffari með skegg en hann geti líka verið smart trans kona og allt þar á milli. Viðbrögðin segir hann að mestu hafa verið góð „en það er líka hollt að setja fram efni sem kallar fram viðbrögð því stundum þarf maður að sjá hvernig stemningin er í samfélaginu til að vinna með hana,“ segir hann. „Ef enn eimir af hugmyndum um að það skipti öllu máli í guðfræði og kristinni trú að Jesús sé hvítur, og það sé grundvallarþáttur í trú fólks, þá þurfum við að vinna með það,“ segir hann.

Myndinni er ætlað að kynna sunnudagaskólann sem hefst bráðlega og vetrarstarf kirkjunnar. „Og hvað erum við að gera þegar við boðum fólk til okkar? Jú, við erum að segja þeim að við boðum kærleiksríkt samfélag, andlegt samfélag og samfélag þar sem huga þarf að umhverfisvernd. Allt eru þetta hlutir sem kirkjan hefur sett á oddinn og birtist einmitt í þessari mynd.“

Eigum öll að finna hlutdeild í frelsaranum

Það er eðlilegt samkvæmt Pétri að fólk staldri við þegar það sér brjóst á Jesú en hann segir gríðarlegu máli skipta að landsmenn finni að við eigum öll hlutdeild í Kristi. „Við eigum okkar glímu og við eigum okkar veröld og veru og við þurfum að finna þessa hlutdeild í frelsaranum til að geta tileinkað okkur boðskapinn sem er kærleikur, mannréttindi og umhverfisvernd. Því það eru helstu áskoranir samtímans og kirkjan þarf að vera þátttakandi í því.“

Geta karlar verið prestar?

Hann rifjar upp sögu sem Agnes M. Sigurðardóttir biskup sagði honum fyrir nokkru af prestatíð sinni. „Hún var prestur á Hvanneyri og ein af fyrstu konunum sem gegndu stöðu prests,“ segir hann. Börnin á Hvanneyri þekktu engan prest nema hana og þegar karlprestur úr annarri sókn kom í heimsókn rak ein stelpan upp stór augu. „Hún sagði: Ég skil þetta ekki. Getur maður verið karl og prestur?“ Stúlkan hafi einfaldlega ekki þekkt veröldina öðruvísi en að presturinn væri kona. „Svona þurfum við að temja okkur og komast að kjarna málsins.“

Ríkt tilefni til að segja fyrirgefðu við Samtökin '78

Pétur bendir þó á að það sé ekkert athugavert við að tala um Jesú sem karl eins og flestir eru vanir, en það þurfi líka að ræða um hann í öðru formi. „Biblíumyndirnar eldast ágætlega ef við ræðum fortíðina eins og hún er og gerum hana upp,“ segir hann. „Það er kannski það sem við þurfum að gera og við þurfum ekki að skammast okkar fyrir söguna eins og hún er.“

Kirkjan sé að senda þau skilaboð út í samfélagið að hún þurfi ekki að vera áhorfandi í mannréttindabaráttu og kynjabaráttu heldur eigi hún að láta til sín taka. „Og það gerir maður stundum með því að ögra umræðunni,“ segir hann. Á stuttum tíma hafi kirkjan breytt um fókus og einbeiti sér til dæmis meira að málefnum flóttamanna og hælisleitenda og umhverfismálum en áður var. Og kirkjan gerði á dögunum upp erfiða sögu varðandi Samtökin '78 „sem kirkjan þurfti að horfast í augu við og segja „fyrirgefðu“ enda ríkt tilefni til,“ segir Pétur. „Ég held það sé allt í lagi að gefa kvenbiskupinum okkar kredit fyrir þetta því kirkjan er að stíga inn í samtímann og eiga samtal við þjóðina um þá veröld sem er.“

Hann segir sunnudagaskólann sömuleiðis hafa breyst síðustu ár. „Hann er alls konar og hann er mjög öflugur. Sunnudagaskólarnir eru ólíkir innbyrðis. Það er upplifun að sjá og finna það og styrkur fyrir kirkjustarfið að við erum ekki öll eins.“

Rætt var við Pétur G. Markan í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Innlent

Pétur Markan nýr samskiptastjóri Biskupsstofu

Vestfirðir

Pétur Markan lætur af formennsku