Það er plagsiður hjá stóru saumastofunum í Lesótó að ráða fáar saumakonur í fast starf, þótt enginn skortur sé á verkefnum fyrir stóru fatakeðjurnar í vesturheimi eins og Levi's gallabuxnarisann. Fátækar konur flykkjast því daglega að verskmiðjunum í von um nokkurra klukkustunda vinnu þann daginn. Þær eru kallaðar dagdömurnar eða „dailies“. Þær vita fullvel hvað þær þurfa að gera til vera valdar úr hópnum og heildargreiðslur fyrir saumaskapinn og ýmsa aðra greiðasemi er um þúsund krónur íslenskar. Þær gera allt til að fæða sársvöng börn sín. Þær sem eru með fasta vinnu snúa blinda auganu að augljósu kynferðislegu ofbeldi. Þeirra eigin starf hangir á bláþræði og síst af öllu vilja þær falla niður í stöðu dagdömu. Þær þurfa líka að gera stjórnendunum kynferðislega greiða til að halda vinnunni.
Flúði nauðgun, kvartaði og var rekin
Mohapi er tuttugu og þriggja ára saumakona. Hún segir í viðtali við Guardian að hún hafi verið himinlifandi þegar hún var loks ráðin í fasta vinnu á saumastofunni eftir langan reynslutíma. Nokkrum dögum eftir fastráðninguna krafðist yfirmaðurinn þess að fá greiðan endurgoldinn kynferðislega á skrifstofunni og það með reglubundnum hætti. Hún flúði ágengni hans, lagði fram kvörtun hjá starfsmannastjóranum og var rekin samdægurs. Í ráðningapappíra hennar var skráð að hún væri hyskin til vinnu, óalandi og óferjandi. Síðan eru liðnir tólf mánuðir og hún fær hvergi vinnu.