Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nauðganir, Levi's og COVID-19

06.09.2020 - 09:56
Aðstæður starfsfólks í fataverksmiðjum Bangladess þykja víðast hvar ansi bágbornar. Mynd úr safni. - Mynd: EPA / EPA
Nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi er daglegt brauð í gallabuxnaverksmiðjum í Lesótó í sunnanverðri Afríku. Kröfur um úrbætur urðu háværar eftir að landlæg misnotkun komst í hámæli en COVID-19 heimsfaraldurinn hefur lamað réttindabaráttu kvenna í Lesótó.

Það er plagsiður hjá stóru saumastofunum í Lesótó að ráða fáar saumakonur í fast starf, þótt enginn skortur sé á verkefnum fyrir stóru fatakeðjurnar í vesturheimi eins og Levi's gallabuxnarisann. Fátækar konur flykkjast því daglega að verskmiðjunum í von um nokkurra klukkustunda vinnu þann daginn. Þær eru kallaðar dagdömurnar eða „dailies“. Þær vita fullvel hvað þær þurfa að gera til vera valdar úr hópnum og heildargreiðslur fyrir saumaskapinn og ýmsa aðra greiðasemi er um þúsund krónur íslenskar. Þær gera allt til að fæða sársvöng börn sín. Þær sem eru með fasta vinnu snúa blinda auganu að augljósu kynferðislegu ofbeldi. Þeirra eigin starf hangir á bláþræði og síst af öllu vilja þær falla niður í stöðu dagdömu. Þær þurfa líka að gera stjórnendunum kynferðislega greiða til að halda vinnunni.

Flúði nauðgun, kvartaði og var rekin

Mohapi er tuttugu og þriggja ára saumakona. Hún segir í viðtali við Guardian að hún hafi verið himinlifandi þegar hún var loks ráðin í fasta vinnu á saumastofunni eftir langan reynslutíma. Nokkrum dögum eftir fastráðninguna krafðist yfirmaðurinn þess að fá greiðan endurgoldinn kynferðislega á skrifstofunni og það með reglubundnum hætti. Hún flúði ágengni hans, lagði fram kvörtun hjá starfsmannastjóranum og var rekin samdægurs. Í ráðningapappíra hennar var skráð að hún væri hyskin til vinnu, óalandi og óferjandi. Síðan eru liðnir tólf mánuðir og hún fær hvergi vinnu.

epa06834022 A view of Levi's brand denim jeans, in Paris, France, 23 June 2018. Retaliatory EU tariffs on 2.8 billion euro worth of US goods have come into effect on 22 June, to counter US president Donald J. Trump's initiative to impose 25 percent tariffs on European steel and a 10 percent tariff on aluminum. The retaliatory EU tariffs imposed on US products include motorcycles, bourbon, corn, textiles, jeans and orange juice.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA

Fataiðnaðurinn skiptir sköpum í Lesótó og stendur undir 20 prósentum af þjóðarframleiðslu. Í fyrra gáfu Réttindasamtök verkalýðsins út skýrslu sem sýndi fram á umfangsmikið kynferðislegt ofbeldi, nauðganir og áreitni í helstu fataverksmiðjum landsins. Hundrað og tuttugu konur frá þremur stórum fataverksmiðjum í landinu lýstu því í skýrslunni að þær hefðu þurft að stunda kynlíf með yfirmönnum sínum til að halda vinnunni. Sumum var nauðgað á vinnustaðnum, aðrar smituðust af eyðni eftir samfarir við yfirmenn sem héldu aftur launum þeirra þar til þær létu undan vilja þeirra. Þær sem kvörtuðu voru reknar. Eigandi þessara verksmiðja er tævanska fyrirtækið Nien Hsing sem framleiðir fyrir Levi's, Wrangler og The Children's Place. Þessi þekktu vörumerki höfðu látið kanna ástandið í verksmðjunum en sáu ekkert athugavert.

Misnotkun og nauðganir um heim allan

Misnotkunin í Lesótó er ekkert einsdæmi. Saumakonur í sambærilegum fataverksmiðjum á Indlandi, Brasilíu, Mexíkó, Sri Lanka, Tyrklandi, Bangladesh og Víetnam eru einnig áreittar kynferðislega og þeim nauðgað í versksmiðjum sem framleiða föt fyrir þekkt alþjóðleg vörumerki. Í skýrslu ActionAid frá síðasta ári kemur fram að 80 prósent allra saumakvenna í Bangladess hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

epa06041463 Faisal (8) sews a scarf in a local garment shop in Dhaka, Bangladesh 21 June 2017.  The World Day Against Child Labor was observed on 12 June across the world to raise awareness and contribute to ending child labor. The theme of this year&#039
Aðstæður starfsfólks í fataverksmiðjum Bangladess þykja víðast hvar ansi bágbornar. Mynd úr safni. Mynd: EPA

Aruna Kashyap hjá Mannréttindavaktinni, Human Rights Watch, segir kynferðislegt ofbeldi almennt í tískuvöruiðnaðinum og þekkt alþjóðleg vörumerki geti ekki hlaupist undan ábyrgð. Levi's vísaði upphaflega allri ábyrgð á ofbeldinu í Lesótó til tælenska undirverktakans en varð að lokum að samþykkja áætlun um að binda enda á það með ýmsum ráðum. Í upphafi árs stóðu vonir til að aðgerðir til að hemja kynferðislegt ofbeldi á saumastofunum í Lesotho yrðu fyrirmynd um heim allan. Með heimsfaraldri kórónuveirunnar kulnuðu þeir draumar. Sala á tískuvörum hrundi, pantanir hættu að berast og voru hvorki sóttar né greiddar á grundvelli ófyrirséðra náttúruhamfara eða force majeure. Ein milljón saumakvenna í Bangladess hefur misst vinnuna og sömu sögu má segja í öðrum löndum. Verksmiðjum er lokað, saumakonur reknar eða lækkaðar hressilega í launum og kynferðislegt ofbeldi þrýfst sem aldrei fyrr. Engin þorir að kvarta með börnin grátandi heima úr hungri. 

Eiga ekki í önnur hús að venda

Konur eru iðulega fyrirvinna fjölskyldunnar í Lesótó en mánaðarlaun þeirra sem þó hafa vinnu er um tíu þúsund krónur íslenskar eða mun minna en einar Levi's gallabuxur út úr búð. Þær hafa ekki í önnur hús að venda til að fæða fjölskylduna. Það vita yfirmennirnir og tískuvörukeðjurnar líka. Því minna sem þær fá borgað, því meira er til skiptana ofar í fæðukeðjunni. Farsóttin hefur gert skelfilegt ástand verra en nokkru sinni fyrr. Undirboðin og arðsemiskrafan kemur harðast niður á fátækum saumakonum og sársvöngum börnum þeirra.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV