Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Namibísk yfirvöld komin með gögn frá Íslandi og Noregi

06.09.2020 - 10:33
Mynd með færslu
James Hatuikulipi, Bernhard Esau og Sakesu Sacky Shanghala. Mynd: The Namibian
Namibísk yfirvöld eru komin með gögn frá Íslandi og Noregi sem eru sögð nýtast við rannsókn namibísku spillingarlögreglunnar ACC á einum anga af sakamálinu sem upp kom eftir uppljóstranirnar í Samherjaskjölunum. Ríkislögmaður Namibíu fór fram á það fyrir helgi að rannsakendur fengju lokafrest til að ljúka rannsókninni.

Þetta kemur fram á vef Informante. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að þeir hafi verið í samskiptum við namibísk yfirvöld og að gögn hafi verið send til Namibíu á grundvelli réttarbeiðna.

Sagði taka tíma að greina gögnin frá Íslandi og Noregi

Ríkislögmaður Namibíu óskaði eftir því á föstudag að spillingarlögreglan fengi síðasta frestinn til að ljúka við rannsókn sakamálsins.   Aðalrannsakandi ACC gaf skýrslu fyrir dómi vegna beiðninnar og greindi þar frá því að þeir hefðu nýlega fengið gögn frá Íslandi og Noregi sem nauðsynlegt væri að fara yfir. Það væri tímafrekt þar sem það þyrfti að gera það handvirkt. Mánuður í viðbót ætti að duga.

Gögnin frá Íslandi og Noregi eru sögð tengjast félaginu Namgomar. Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, er þar sakaður um spillingu vegna útdeilingu á 55 þúsund tonna hrossamakrílskvóta til fyrirtækisins ásamt fjórum öðrum.  

Rannsókn annarra mála að ljúka

Aðalrannsakandi ACC upplýsti jafnframt fyrir dóminum að þeir væru komnir með næg gögn varðandi aðra þætti málsins. Hann ætti von á því að þau yrðu send til embættis ríkissaksóknara sem tæki síðan endanlega ákvörðun. Munnlegur málflutningur um beiðni ríkislögmannsins fer fram á miðvikudag.

Alls eru sex sakaðir um spillingu og fjársvik í tengslum við uppljóstranirnar í Samherjaskjölunum. Auk Esau eru það meðal annars Sacky Shangala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishor. 

Sex menningarnir eru sagðir hafa tekið á móti greiðslum sem nema að minnsta kosti 103 milljónum namibíudollara frá sjávarútvegsfyrirtækjunum Mermaria Seafod Namibia og Esja Seafood sem bæði eru í eigu Íslendinga.

Greiðslurnar eru sagðar ná yfir tímabilið 2014 til 2019 og áttu  að tryggja áframhaldandi fiskikvóta fyrir bæði fyrirtækin.

Rannsóknin í Namibíu hafði staðið yfir í heilt ár áður en þáttur Kveiks um Samherjaskjölin var sýndur.  Sexmenningarnir voru handteknir eftir þá umfjöllun og hafa setið í varðhaldi síðan.  Þeir hafa allir lýst yfir sakleysi sínu og farið fram á að verða sleppt en því hefur alltaf verið hafnað.

Samherji hafnar því að hafa mútað fólki

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í viðtali við Sprengisand í síðasta mánuði að fyrirtækið hefði ekki greitt mútur í tengslum við rekstur félagsins í Namibíu.  Þeir myndu sýna fram á það að „við höfum ekki verið að múta fólki.“

Fréttastofa greindi frá því í vikunni að sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja hefðu réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi félagsins í Namibíu.

Þorsteinn sagði í yfirlýsingu á vef Samherja að hann teldi engan grundvöll fyrir ásökunum um saknæma háttsemi vegna starfseminnar í Namibíu „jafnvel þót ýmis mistök hafi verið gerð í þeim rekstri og ekki hafi verið fullnægjandi eftirlit með starfseminni þar, eins og komið hefur fram.“ Sagði Þorsteinn að fyrirtækið myndi á næstu vikum leiðréttar rangfærslur sem hafa verið fluttar í fjölmiðlum.