Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kórónuveirusmitum fjölgar í Bretlandi á ný

06.09.2020 - 23:03
epa08317743 A commuter wearing a face mask at Victoria Underground station, in Central London, Britain, 24 March 2020. British Prime Minister Johnson has announced that Britons can only leave their homes for essential reasons or may be fined, in order to reduce the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease, reports state.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA
Síðasta sólarhring voru greind nær þrjú þúsund COVID-19 smit í Bretlandi. Smitin hafa ekki verið svo mörg síðan í lok maí, samkvæmt tölum frá þarlendum heilbrigðisyfirvöldum.

Breskir stjórnmálamenn hvetja til aðgæslu en eru jafnframt uggandi yfir áhrifum faraldursins á efnahag landsins.

Heilbrigðisráðherra landsins, Matt Hancock, hefur lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Ungt fólk er í miklum meirihluta þeirra sem hafa smitast að undanförnu. Ráðherrann hefur hvatt til þess að almennt sýni ungt fólk varkárni og passi upp á að smita ekki eldra fólkið.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst því yfir að gripið verði til hertra aðgerða á ákveðnum svæðum, frekar en að setja aftur á allsherjar útgöngubann í landinu. Sú nálgun er í skoðun vegna þess hve slæm áhrif útgöngubannið hafði á efnahaginn.

Nú þegar skólaárið er að hefjast velta foreldrar fyrir sér hvort öruggt sé að senda börn sín í skóla. Hancock heilbrigðisráðherra álítur mikilvægt að breskir foreldrar geri það því áríðandi sé að börn öðlist menntun.

Sadiq Khan borgarstjóri Lundúna bendir á að borgarbúar hafi þegar fært þungar fórnir vegna faraldursins en að áfram þurfi að fylgja reglum og gæta öryggis enda geisi faraldurinn enn.

Milljónir Breta hafa sinnt störfum sínum að heiman og Dominic Raab utanríkisráðherra kveður mikilvægt að fólk snúi aftur á vinnustaði sína. Það skuli þó gerast í áföngum en að það sé lífnauðsyn fyrir breskan efnahag.

Alls hafa 350 þúsund tæp greinst með COVID-19 á Bretlandseyjum. Í dag voru 124 lögð inn á sjúkrahús, heildarfjöldi á sjúkrahúsum er nú 769 og þar af eru 69 í öndunarvél.