Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Iðnaðarhampur vex og dafnar í Grímsnesi

06.09.2020 - 20:00
Mynd: Freyr / rúv
Iðnaðarhampur vex nú á methraða í Grímsnesi á Suðurlandi, þar sem kjöraðstæður virðast vera til ræktunarinnar. Heilbrigðisráðherra heimilaði vor ræktun og innflutning iðnaðarhamps og ræktandinn telur að Íslendingar eigi eftir að taka plöntuna í sátt, enda sé hún til margra hluta nytsamleg.

„Þetta er Fedóra sautján, afbrigði af hampi, iðnaðarhampi sem vex hér og dafnar í Suðurlandssveitum. Og víðar á Íslandi um þessar mundir,“ segir Kristinn Sæmundsson sem ræktað hefur iðnaðarhamp í sumar. 

Plönturnar orðnar tveggja metra háar

Hampurinn er áþekkur ólöglegum kannabisplöntum en inniheldur innan við 0,2 prósent af THC og er því ónothæfur sem vímugjafi. Plantan dafnar vel hér um slóðir. Kristinn sáði fræum í júní og plönturnar eru margar orðnar nær tveggja metra háar.

„Þessi blóm, þessu var sáð annan júní. Og við höfum nákvæmlega ekkert um þetta sinnt - hvorki vökvað, reitt illgresi né borið á. Hér er sagt gamall kúaskítur og hland og annað sem sjálfsagt hefur hjálpað þessu að verða svona svakalega fallegt,“ segir Kristinn. 

Notað í byggingarefni, te og föt

Saga hampræktunar nær árþúsundir aftur í tímann en plantan til marga hluta nytsamleg-  til dæmis er hægt að gera úr henni byggingarefni, föt, segl, reipi, pappír og margt fleira. Talið er að iðnaðarhampur geti komið í staðinn fyrir ýmis efni sem ógna umhverfinu, eins og plast. 

„Þetta er allt hægt að nýta. Allt sem er grænt og fínt og flott, það er bara hin besta og hollasta næring sem við finnum. Og svo er hægt að nota toppana í te og annað slíkt,“ segir Kristinn. 

Hampurinn orðið fyrir fordómum

Kristinn segir iðnaðarhampinn hafa orðið fyrir miklum fordómum síðustu áratugi, þar sem margir tengi plöntuna við kannabisefni.

„Ég spái því að Íslendingar, eins og heimurinn allur, eigi eftir að taka plöntuna aftur í sátt. og hér á Íslandi verði bara hampæði og allir hampandi öllum og gúffandi í sig hampprótein og sjeika.“ 

Áhugi á afurðunum

Á næstu vikum verða hampplöntur Kristins teknar upp. Hann segir nokkurn áhuga á afurðunum.

„Það kemur mér verulega á óvart áhuginn og fjölbreytileiki nytja sem menn sjá fyrir sér. Þetta er bara alveg lovlí. Svo er þetta svo falleg planta, fólk elskar þetta,“ segir Kristinn.