Fleiri áhorfendur frá og með morgundeginum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Fleiri áhorfendur frá og með morgundeginum

06.09.2020 - 09:58
Frá og með morgundeginum verður hægt að fjölga áhorfendum á íþróttaviðburðum hér á landi og mega því allt að 200 áhorfendur vera í hverju hólfi. Knattspyrnusamband Íslands hefur þegar birt nýjar reglur um framkvæmt knattspyrnuleikja.

Í frétt á vef KSÍ kemur fram að nú sé heimilt að skipta leikvangi í hólf og eins metra regla taki við af tveggja metra reglunni. Þá er nú leyfi fyrir 200 manns í hverju hólfi í stað 100. Samkvæmt tilkynningu sem ÍSÍ birti þurfa rými að vera algjörlega aðskilin með að minnsta kosti tveggja metra háu skilrúmi eða tveggja metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þurfi einnig að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta sem er í boði skal einnig vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig. 

Fjölda- og nálægðartakmarkanir eiga eingöngu við um fullorðna, það er þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar. 

Ljóst er að þetta getur skipt knattspyrnufélög hér á landi miklu máli og fjölmörg lið eiga geta nú svæðisskipt áhorfendasvæðum til að koma 200 áhorfendum fyrir í hvert hólf. Reglurnar taka gildi frá og með morgundeginum.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Tómar stúkur heyra brátt sögunni til