Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Er NBA deildin pólitísk samtök?

06.09.2020 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: NBA - Twitter
Víða um heim hefur aukin krafa almennings félagslegt réttlæti birst í mörgum myndum, meðal annars í gegnum íþróttir. Það hefur ekki farið framhjá neinum að undanfarna mánuði hefur mikið gengið á í bandarísku samfélagi, ekki aðeins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi, heldur einnig vegna ofbeldis lögreglunnar gegn svörtu fólki.

Fyrir stuttu skaut lögreglumaður í bænum Kenosha í Wiscosnsinríki Jacob nokkurn Blake sjö skotum í bakið, af stuttu færi, og fyrir margra var það dropinn sem fyllti mælinn. Meðal annars fyrir leikmenn NBA deildarinnar. Barátta körfuboltamanna vestanhafs fyrir breyttum heimi var til umfjöllunar í Heimskviðum á föstudag.

Leikmenn Bucks mæta ekki til leiks

Í Disneylandi í Flórída er fimmti leikur Milwuakee Bucks og Orlando Magic við það að hefjast í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Það er 26. ágúst. Leikmenn Orlando eru komnir út á gólfið að hita upp, en Bucks-liðar eru hvergi sjáanlegir.

Af svip leikmanna Orlando Magic má ráða að þeir séu nokkuð ráðvilltir. Hvar eru mótherjar okkar, spyrja þeir hver annan? Sjónvarpsþulur þeirra Bucks-manna ávarpar sjónvarpsáhorfendur út um allan heim. Orlando-liðar eru komnir út á völl, en Bucks-liðar ekki, segir hann Hann heldur áfram: „Okkur er sagt að liðsmenn Bucks séu að íhuga að spila ekki þennan fimmta og mikilvæga leik í einvíginu gegn Orlando Magic.“

Og það varð raunin. Leikmenn Milwuakee Bucks ákváðu að spila ekki leikinn mikilvæga, sem með sigri hefði tryggt þeim farseðilinn í undanúrslit austurdeildarinnar. Þetta var stór ákvörðun.

Yfirlýsing leikmanna: „Einbeitum okkur ekki að körfubolta“

Flestir leikmanna Bucks, eins og flestra liða í NBA-deildinni, eru svartir og margir þeirra hafa þurft að þola órétt alla sína tíð vegna hörundslitar síns. Meðal þeirra er Sterling Brown, en árið 2018 lenti Brown í útistöðum við lögreglumann í Milwuakee út af því hvernig Brown hafði lagt bíl sínum. Það endaði með því að lögreglumaðurinn sneri hann niður í jörðina og spreyjaði piparúða í augun á honum. Myndband af atvikinu sýnir að Brown hafði fátt til saka unnið.

Örfáum mínútum eftir að leikur Bucks og Magic var blásinn af, höfðu leikmenn Bucks safnast saman fyrir framan búningsklefa liðsins. Þar stóð Sterling Brown fremstur í flokki, og las upp þessa yfirlýsingu:

Síðustu fjórir mánuðir hafa varpað ljósi á það gegnum gangandi óréttlæti sem svartir íbúar Bandaríkjanna mega þola. Fólk um land allt hafa lýst yfir áhyggjum sínum og talað gegn þessu óréttlæti. Síðustu daga höfum við sé myndbandið hræðilega úr heimaríki okkar Wisconsin, þar sem Jacob Blake er skotinn í bakið sjö sinnum af lögreglumanni í Kenosha, og myndbönd af því þegar mótmælendur eru skotnir. Þrátt yfir yfirþyrmandi ákall um breytingar, hefur ekkert gerst. Við sjáum okkur því ekki fært að einbeita okkur að körfubolta,

sagði Sterling Brown. Hann vísar hér í þá hræðilegu árás sem Jacob nokkur Blake, 29 ára svartur maður og íbúi í bænum Kenosha í Wisconsin, varð fyrir að hálfu lögreglumanns þann 23. ágúst, þremur dögum fyrir leik Bucks og Magic. Blake var skotinn sjö sinnum í bakið af stuttu færi af lögreglumanni þegar hann gerði sig líklegan til ganga inn í bíl sinn eftir að hafa streist á móti handtöku. Ótrúlegt þykir að Jacob Blake hafi komist lífs af.

Við hlið Sterling Brown fyrir framan búningsklefann í Disneylandi stendur George Hill, einn af lykilmönnum Milwuakee Bucks. Hann tekur við af Brown og segir:

Þegar við förum út á völl erum við fulltrúar Milwuakee og Wisconsin. Það er ætlast til þess að við spilum á háu leveli, gefum allt í leikinn og berum ábyrgð hver á öðrum. Við setum þær kröufur á okkur sjálfa, og núna erum við að setja þær kröfur á löggjafarvaldið.

Við viljum réttlæti fyrir Jacob Blake, og krefjumst þess að lögreglumennirnir verði látnir sæta ábyrgð. Til þess að það geti gerst, þarf Wisconsinríki að gyrða sig í brók, eftir margra mánaða aðgerðaleysi, og taka harðar á löregluofbeldi og fara í gagngera endurskoðun á sínu dómskerfi. 

Við hvetjum alla til að endurmennta sig, grípa til friðsamlegra en ábyrgra aðgerða, og muna að kjósa þann þriðja nóvember,

sagði George Hill. Á bol hans er tilvitnun í Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þar segir: „Breytingar verða ekki ef við bíðum eftir öðrum, ef við bíðum eftir betri tíma. Við erum þau sem beðið er eftir. Við erum breytingin sem við leitum eftir," stendur þar. Já, munið að kjósa þann þriðja nóvember sagði George Hill, áður en hann gekk á brott ásamt liðsfélögum sínum. Við komum aftur þessu síðastnefnda síðar í þessum pistli.

Áhrifamikil ákvörðun sem hafði víðtæk áhrif

Ákvörðunin skók körfuboltaheiminn, en Bucks-liðar fengu stuðning víða að og ruðningsáhrifin voru talsverð. Leikjum var frestað í Major League Baseball hafnaboltadeildinni og bæði karla- og kvennadeildum MLS fótboltans. Naomi Osaka, ein skærasta tennisstjarna heims, ákvað sömuleiðis að hætta við þátttöku á Opna Bandaríska meistaramótinu.

Þá studdu aðrir leikmenn NBA-deildarinnar þessa ákvörðun og var öllum leikjum úrslitakeppninnar frestað. Leikmannasamtök NBA-deildarinnar funduðu í kjölfarið og þar var ákveðið að keppni yrði haldið áfram, en aðeins að þremur skilyrðum uppfylltum.

Í fyrsta lagi yrði NBA-deildin í samvinnu við leikmenn að hrinda af stað átaki þar sem staðið yrði fyrir aukinni fræðslu um mikilvægi kosninga, borgarasamtök yrðu efld og barist yrði fyrir breytingum á lögreglu- og réttarkerfinu. Í öðru lagi yrði fólki gert kleift að kjósa í forsetakosningunum í haust í æfingaaðstöðu liða vítt um Bandaríkin, óhrætt um að smitast af kórónuverirunni. Í þriðja lagi fengi boðskapur um félagslegt réttlæti að hljóma í auglýsingahléum í öllum leikjum deildarinnar.

Semsagt, þessi djarfa ákvörðun Bucks-liða hafði áhrif, að minnsta kosti einhver. Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem NBA-leikmenn hafa með áberandi hætti vakið athygli á því óréttlæti og þeirri kúgun sem svartir Bandaríkjamenn eru beittir. En eftir stendur sú spurning, hvers vegna er NBA-leikmönnum þetta mál svona hugleikið?

epa08575604 The NBA Logo and Black Lives Matter on the court as Los Angeles Lakers and Los Angeles Clioppers players warm up two hours before tip off at the ESPN Wide World of Sports complex restarting the NBA season in Kissimmee, Florida, USA, 30 July 2020. The NBA season is resuming with 22 teams playing all games at the Walt Disney World sports complex outside Orlando, Florida.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA
„Black Lives Matter“ stendur skrifað stórum stöfum á leikvellinum í Disneylandi.

Tvö stopp á einu ári

Þetta er í annað skiptið á þessu ári sem keppni stöðvast í NBA-deildinni. Öllum leikjum deildarinnar var frestað um óákveðinn tíma þann 11. mars, eftir að Rudy Gobert, leikmaður Utah Jazz, reyndist smitaður af kórónuveirunni. Í byrjun júní tilkynntu forsvarsmenn deildarinnar að keppni myndi hefjast að nýju í byrjun ágúst. Öll liðin, leikmenn, starfsmenn og allir aðrir yrðu einangruð í Disneylandi, þar sem deildarkeppnin yrði kláruð og öll úrslitakeppnin spiluð. Þetta hljómaði kannski eins og galin hugmynd, en liðin slógu til og NBA-deildin fór aftur af stað í búbblunni í Flórída.

Ákvörðunin um að hefja leik í deildinni að nýju í upphafi ágústmánaðar var umdeild, en það var nefnilega ekki aðeins kórónuveiran sem gerði það að verkum að margir leikmenn voru ekki upplagðir í fara að spila körfubolta. Morðið á George Floyd í lok maí var mörgum enn í fersku minni, mótmælin sem teygðu sig út um allan heim voru leikmönnum ofarlega í huga og þegar deildin var endurræst bar hún þess glögg merki.

Í búbblunni í Flórída stendur Black Lives Matter stórum stöfum á körfuboltagólfinu, og á baki leikmanna standa skilaboð eins og Justice, eða réttlæti. Education Reform, eða úrbætur í menntakerfinu, Peace, eða friður, og I am a Man, eða ég er maður. Á baki fjölmargra leikmanna stóð Say Her Name, sem vísar þjóðfélagshreyfingu sem vekur athygli á kvenkyns fórnarlömbum lögregluofbeldis. Þetta eru í sjálfu sér táknrænar aðgerðir, en aðrar voru áþreifanlegri. Deildin ákvað að veita 300 milljónum bandaríkjadala til stuðnings efnahagslegri uppbyggingu í svörtum samfélögum í landinu.

Því skyldi kannski engan undra, að þegar leikmenn Bucks fengu fregnir af því að lögreglumaður hefði skotið mann, um 40 kílómetrum frá Milwuakee, sjö sinnum í bakið, hefði keyrt um þverbak.

epa08647759 US President Donald J. Trump holds a news briefing at the White House, in Washington, DC, USA, 04 September 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er ekki hrifinn af uppátæki Bucks-liða.

Forsetinn bregst illa við

Sitt sýnist þó hverjum um viðbrögð NBA-leikmanna. Ein reglubreytingin sem stjórnendur NBA-deildarinnar gerðu þegar keppni hófst í byrjun ágúst, var sú að heimila leikmönnum að krjúpa meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna er spilaður áður en leikar hefjast. Það að krjúpa, en ekki standa þegar þjóðsöngurinn er leikinn, er athæfi sem hefur klofið bandarískar íþróttir undanfarin ár, og í raun bandarískt samfélag. Upphaf þessa má rekja til Colins Kaepernick fyrrum leikmanns San Francisco 49ers í bandarísku NFL deildinni, en hann kraup þegar þjóðsöngurinn var leikinn til að vekja athygli á því óréttlæti sem svartir Bandaríkjamenn og aðrir minnihlutahópar verða fyrir í þessum heimkynnum hinna frjálsu, eins og segir í þjóðsöngnum.

Óhætt er að segja Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi tekið þetta óstinnt upp og gagnrýndi hann Kaepernick og þá sem fylgdu honum eftir harðlega. Þegar NBA-leikmenn tóku upp á því að krjúpa fyrir leiki sína í ágúst í kjölfar George Floyd mótmælanna, sagði Trump þetta:

Þegar ég sé leikmenn krjúpa yfir þjóðsöngnum, finnst mér það ósættanlegt og ég skipti um stöð. Enginn hefur staðið sig betur í að bæta kjör svartra en ég, Nema kannski að Abraham Lincoln undanskildum.

Þegar Lebron James, einn besti körfuboltamaður allra tíma og leikmaður Los Angeles Lakers, var spurður út í þessi orð, sagði hann að leikmenn myndu ekki sakna þess að Trump fylgdist með þeim. Umræðan hélt áfram í síðustu viku, þegar Trump var spurður út í verkfallsaðgerðir NBA-leikmanna í kjölfar morðsins á Jacob Blake.

„Ég veit ekki mikið um þessi mótmæli,“ sagði forsetinn, „en ég veit að það eru ekki margir að horfa á NBA. Fólk er orðið þreytt á NBA.“ Og svo bætti hann því við að NBA deildin væri orðin pólitísk samtök. Það væri ekki gott fyrir íþróttir almennt, og það er ekki gott fyrir landið.

Trump hefur líklega rétt fyrir sér að einu leyti. NBA eru sannarlega orðin pólitísk samtök þegar leikmenn og forsvarsmenn deildarinnar beita sér með þessum hætti fyrir því að hagur svarts fólks í Bandaríkjamanna sé bættur og vekja athygli á þeirri kúgun og því óréttlæti sem þau verða fyrir á degi hverjum.

Leikmenn deildarinnar hafa tekið harða afstöðu gegn þeirri pólitík sem forsetinn boðar, en eins og fjallað hefur verið um í Heimskviðum hefur Trump verið tíðrætt um mikilvægi þess að lögreglan verði efld og hvers kyns viðnám verði kveðið niður með valdi.

Þegar George Hill klæddist bol með fyrrnefndri tilvitnun í Barack Obama er hann las upp yfirlýsingu Milwuakee Bucks, um hvers vegna þeir sæju sér ekki fært að spila körfubolta þegar svart fólk um allt land væri beitt órétti, voru skilaboðin skýr. „Við erum breytingin sem við leitum eftir,“ stóð þar. Með því að hvetja fólk til að ganga að kjörborðinu og kjósa í forsetakosningunum þann 3. nóvember eru leikmenn ekki að hvetja fólk til að kjósa Donald Trump, það eitt er á hreinu.

Sjaldan eða aldrei hafa íþróttamenn tekið jafn skýra afstöðu gegn ríkjandi þjóðarleiðtoga og nú. Hvort það hafi áhrif í nóvember á eftir að koma í ljós.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður