Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Demantshringurinn formlega opnaður

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Demantshringurinn svokallaði á Norðurlandi var opnaður í dag með formlegum hætti í Jökulsárgljúfrum. Þó um nýja ferðamannaleið sé að ræða segir samgönguráðherra að á sama tíma sé þessi leið almennt mikil samgöngubót.

Demantshringurinn er hringleið sem opnast með nýjum Dettifossvegi sem nú er verið að leggja lokahönd á. Þetta er 250 kílómetra langur hringur þar sem hægt er að keyra að mörgum helstu náttúruperlum á Norðurlandi, eins og Goðafossi, Dimmuborgum og Hverum í Mývatnssveit, Dettifossi og Ásbyrgi.

Þrír ráðherrar klipptu á borðann

Það voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, sem klipttu á borða og opnuðu Demantshringinn með formlegum hætti. Sveitarstjórarnir í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit strengdu borðann yfir Dettifossveg áður en ráðherrarnir klipptu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjöldi gesta var við opnun Demantshringsins

Einn stærsti segull í ferðaþjónustu á Íslandi

Þetta er langþráður áfangi í ferðaþjónustunni á Norðausturhorninu og í raun stór stund fyrir marga. „Ferðaþjónustan hefur auðvitað verið að nýta Demantshringinn til margra ára, verið að selja ferðir undir þesu nafni,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. „En þar sem hluti af veginum var nánast ófær slóði, gátum við ekki sinnt þessu af fullum krafti. Þannig að nú sjáum við fram á að vera með einn stærsta segul á Íslandi í ferðaþjónustu hér í höndunum.“

Nýtist ferðaþjónustunni á stóru svæði

Og það eru ekki aðeins ferðamannastaðir næst Demantshringnum sem munu njóta þessarar nýju leiðar heldur segir Arnheiður þetta einnig mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna lengra í burtu. „Það er í rauninni Norðausturhornið okkar, Norðurhjarasvæðið, sem á eftir að hafa mikinn ávinnig af þessu líka. Þrátt fyrir að vera ekki beint á þessum hring þá er verið að opna núna samgönguleið.“

„Frábært byggðamál“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir þetta almennt mikla samgöngubót sem gagnist mun fleirum en ferðaþjónustunni einni. „Já þetta er gríðarlega góð samgöngubót hér innan héraðs og tengir auðvitað saman svæði og er hluti af því sem við erum að gera. Tengja saman byggðirnar til þess að gera þær samkeppnishæfari hver við aðra. Frábært byggðamál.“