
Bóluefni gegn kórónuveirunni eitt kosningamála vestra
Hart hefur verið lagt að Donald Trump Bandarikjaforseta að finna leiðir til að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar.
Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna fór nýverið þess á leit við ráðamenn í einstökum ríkjum að eyða skriffinnsku sem gæti komið í veg fyrir að bóluefni verði aðgengilegt fyrir fyrsta nóvember.
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur einnig gefið undir fótinn með að neyðarundanþága verði veitt til að gefa formlegt leyfi fyrir bóluefni áður en prófunum lýkur.
Kamala Harris varaforsetaefni Demókrata kveðst ekki myndu treysta Trump Bandaríkjaforseta til að segja satt um virkni og öryggi bóluefnis gegn kórónuveirunni.
Kayleigh McEnany,talskona Hvíta hússins, hafnar öllum vangaveltum um að verið væri að þrýsta á að bóluefni yrði tilbúið fyrir kosningar. Meginverkefnið væri að bjarga mannslífum.
Trump fullyrti á landsþingi Repúblikana að bóluefni yrði tilbúið til framleiðslu fyrir árslok, jafnvel fyrr. Smitsjúkdómasérfræðingurinn Anthony Fauci segir ólíklegt, en ekki útilokað að bóluefni verði tilbúið í október.
Fauci telur þó líklegast að frumniðurstöður á virkni og öryggi bóluefnis birtist í nóvember eða desember.