Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Árásir með eggvopni í miðborg Birmingham

06.09.2020 - 06:16
Mynd með færslu
Birmingham. Mynd: Jimmy Guano - Wikimedia Commons
Lögregla í Vestur-Miðhéruðum Englands hefur tilkynnt um hnífstunguárásir í miðborg Birmingham, næststærstu borg landsins.

Atvikið átti sér stað skömmu eftir miðnætti. Í gærkvöldi sat fjöldi fólks á útisvæðum veitingahúsa á svæðinu sem er nærri hinu svokallaða Gay Village í miðborg Birmingham.

Lögregla segir í yfirlýsingu að vitað sé að einhver fjöldi fólks hafi verið stunginn en sé ekki í aðstöðu til að upplýsa um hve margir eða hve alvarlegir áverkar þeirra séu.

Lögregla og sjúkralið unnu að því eftir miðnætti að hlúa að hinum særðu og koma þeim undir læknishendur.

Rannsókn stendur nú yfir á hvað átti sér stað. Lögregluyfirvöld í borginni segja að einhvern tíma geti tekið að átta sig á málavöxtum. Atvikið er að sögn mjög alvarlegt en ekki sé við hæfi að hafa uppi vangaveltur um hvað gerðist. 

Lögregla hefur lokað svæðið af þar sem árásin var gerð. Almenningur er hvattur til fara ekki inn fyrir varðsvæði lögreglunnar og sýna rósemi og aðgát. 

Fréttin var uppfærð kl. 6:54
 

Hnífaárás var gerð í Birmingham aðfaranótt 6. september 2020.
 Mynd: Shauninbrum - BBC
Lögregla í Birmingham í varðstöðu á gatnamótum Hurst strætis og Bromsgrove
markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV