Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ákærður fyrir peningaþvætti upp á 112 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Framkvæmdastjóri hlutafélags hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti upp á samtals 112 milljónir. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl á síðasta ári og lauk skiptum í september sama ár. Lýstar kröfur í búið námu 180 milljónum.

Ákæruliðirnir eru tveir. Í öðrum þeirra er maðurinn ákærður ásamt bókara félagsins fyrir meiriháttar brot gegn skatta-og bókhaldslögum.

Þeir eru sagðir hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2012 og 2013 með því að offramtelja rekstrargjöld félagsins um rúmar 90 milljónir.  Tekjuskattsstofn félagsins var því vanframtalin um 41 milljón og félagið komst hjá því að greiða tekjuskatt upp á 7,5 milljónir.

Þá eru mennirnir ákærðir fyrir að skila efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og leiðréttingaskýrslum virðisaukaskatts með því að offramtelja innskatt um tæpar 66 milljónir. 

Framkvæmdastjórinn er síðan einn ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinninginn af þessum skattalagbrotum, 74 milljónir, í þágu félagsins og eftir atvikum í eigin þágu.

Í hinum lið ákærunnar er maðurinn er einn ákærður fyrir að aflað sér 38 milljónir með skattalagabrotum. Það er hann sagður hafa gert með því að hafa tekið samtals 85 milljónir út úr rekstri fyrirtækisins og ráðstafað upphæðinni í eigin þágu og til eiginkonu sinnar. 

Saksóknari segir að þessar úttektir hafi verið skattskyldar en maðurinn hafi ekki gert grein fyrir þeim á skattframtölum sínum. Fram kemur í ákærunni að maðurinn hafi tekið peninginn út á árunum 2010 til 2013. Þá segir jafnframt að hann sæti endurákvörðun opinberra gjalda vegna úttektanna með úrskurði ríkisskattstjóra frá því í janúar 2018.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á næstunni.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV