Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Umbreyting til borgaralegrar stjórnar rædd í Malí

05.09.2020 - 04:40
epa05036173 Malian soldiers stand guard outside the Radisson Hotel following a hostage situation a day earlier, in Bamako, Mali 21 November 2015. A state of emergency has been imposed for ten days in Mali following the hostage suitation at the Radisson
 Mynd: EPA
Herforingjastjórnin sem rændi völdum í Malí í liðnum mánuði, bandamenn hennar og fulltrúar ýmissa hagsmunahópa hyggjast ræða sín í milli í dag. Fundarefnið er loforð herforingjanna um að gefa völd sín eftir til borgaralegra afla í landinu.

Fundað verður í höfuðborginni Bamako en sambærilegir fundir verða haldnir víða um landið. Meðal þess sem á að ræða er hve langan tíma herforingjastjórnin muni taka sér í að stíga til hliðar.

Í upphafi stóð til að það tæki þrjú ár en nýjasta tilboð herforingjanna gerir ráð fyrir tveggja ára umbreytingartímabili. Nágrannaríki Malí í Vestur-Afríku ásamt Frakklandi hafa lagt hart að herforingjastjórninni að láta skjótt af völdum. Óttast er að óróinn þar gæti ella haft áhrif í nærliggjandi löndum.

Í þeim tilgangi hafa Samtök Vestur-Afríkuríkja beitt Malí viðskiptaþvingunum og lokað landamærum. Upphaflega hugðist herforingjastjórnin umskiptin yfir í borgaralega stjórn síðastliðna helgi en fundahöldum var frestað eftir að skarst í odda milli hennar og 5. júní hreyfingarinnar svokölluðu.

Hreyfingin hafði verið í fylkingarbrjósti þeirra mótmæla sem leiddu til þess að völdum var rænt af Ibrahim Boubacar Keita. Fulltrúar hennar krefjast þess að herforingjarnir láti 18 til 24 mánuði nægja til að snúa landinu til borgaralegrar stjórnar.

Fleiri koma að borðinu

Borgaralegir og trúarleiðtogar krefjast hlutverks í breytingaferlinu en fulltrúum þeirra var ekki boðið að fundarborðinu um síðustu helgi. Nú hefur þeirri ákvörðun verið snúið við. Þeim er boðið ásamt fulltrúum stjórnmálaflokka í landinu, fyrrverandi uppreisnarmönnum, verkalýðsleiðtogum og fulltrúum fjölmiðla.

Á mánudag fundar herforingjastjórnin með fulltrúum Vestur-Afríkuríkja gegnum fjarfundabúnað. Krafa þeirra er að efnt verði til kosninga í landinu innan tólf mánaða.

Malí hefur búið við mikinn óstöðugleika um langa hríð, barátta við herskáa íslamista skekja landið, átök milli þjóðarbrota eru tíð og spilling er landlæg. Valdarán hersins í síðasta mánuði er það fjórða í landinu síðan það hlaut sjálfstæði.