Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttvarnaraðgerðir í stöðugu endurmati

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að tvöföld skimun á landamærum hafi skilað ótvíræðum árangri í að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Starfshópur sem á greina efnahagsleg áhrif sóttvarna á skila fyrstu niðurstöðu síðar í þessum mánuði.

 

Katrín fundaði á fimmtudag með formönnum allra flokka á Alþingi til að fara yfir þær sóttvarnaraðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi. Fundinn sátu einnig landlæknir, sóttvarnalæknir og fulltrúi almannavarna.

Frá 19. ágúst hafa allir komufarþegar þurft að fara í tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví á milli skimana. Verulega hefur dregið úr komu ferðamanna hingað til lands eftir að þessar reglur tóku gildi og hefur Icelandair aflýst tugum flugferða á síðustu dögum.

Katrín segir að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að draga úr útbreiðslu veirunnar hér á landi.

„Við erum að sjá annars vegar hlutfallslega fjölgun smita á landamærum sem endurspeglar auðvitað stöðu faraldursins í löndunum í kringum okkur og hins vegar erum við að sjá nokkur smit vera að greinast í seinni skimun sem ekki eru að greinast í fyrri skimun. Sem sömuleiðis sýnir fram á þarna erum við að treysta betur varnir okkar gegn veirunni,“ segir Katrín.

Atvinnuleysi hefur aukist hratt á undanförnum mánuðum og þá sýna tölur Hagstofunnar sögulegan samdrátt í landsframleiðslu. 
Fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp undir forystu Más Guðmundssonar fyrrverandi seðlabankastjóra sem á að leggja mat á efnahagsleg áhrif sóttvarnaraðgerða en hópurinn á skila fyrstu niðurstöðu síðar í þessum mánuði.

Katrín segir að aðgerðirnar séu í stöðugu endurmati.

„Síðan er sjálft fyrirkomulagið svona heildarmyndin ávallt til skoðunar hjá stýrihópi ráðuneytisstjóra. Það er líka verið að vinna að ákveðnum viðmiðunum, þ.e. hvaða breytingar þurfa að verða til þess að hægt sé að slaka á þessu fyrirkomulagi. Enn sem stendur þá teljum við í öllu falli að þessi tvöfalda skimun á landamærunum sé að skila alveg ótvíræðum árangri þegar kemur að því að treysta varnir okkar gegn veirunni,“ segir Katrín. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV