
Óttast að Danir séu aftur að missa tökin á faraldrinum
Thomsen segir í viðtali við DR að þótt sjúkrahúsinnlögnum hafi ekki fjölgað geti verið of seint að grípa í taumana þegar og ef það gerist. „Ríkisstjórnin hefur það val að grípa til aðgerða strax eða bíða og taka áhættuna.“
Thomsen telur að heilbrigðisstarfsfólk hljóti að hafa áhyggjur af þróun mála. Í gær vöruðu heilbrigðisyfirvöld við því að ef tölur yfir fjölda smita lækkuðu ekki um helgina yrði gripið aftur til aðgerða.
Smitum hefur fjölgað í Kaupmannahöfn og segir Thomsen erfitt að nefna einhverja eina ástæðu fyrir því. „Og þess vegna gæti verið klókt að innleiða einhverjar reglur til að ná utan um þetta.“ Útbreiðslan sé hvorki bundin við neinn sérstakan hóp né hverfi. Kaupmannahafnarlögreglan hefur þegar tilkynnt að hún muni hafa meira eftirlit með næturlífinu í höfuðborginni næstu daga.
I Óðinsvéum hefur smitum einnig fjölgað. Þrátt fyrir það var næturlífið í miklum blóma í borginni í gær. Samkvæmt núgildandi reglum mega skemmtistaðir hafa opið til klukkan tvö á nóttinni. Ekki má þó hleypa nýjum gestum inn á staðinn eftir klukkan 23. „Án þess að vilja hljóma eins og gamall, pirraður karl þá þótti mér pínu leitt að unga fólkið skyldi ekki hlusta betur á viðvaranir yfirvalda.“
Thomsen telur að meðal þess sem stjórnvöld gætu gripið til væri að skikka fólk til að vera með grímur í stórmörkuðum og að skemmtistöðum væri gert að loka fyrr. Þá geti stjórnvöld gripið til þess að banna eða takmarka heimsóknir á hjúkrunarheimili.