Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Morðmál fellt niður eftir sex dóma og 23 ár í fangelsi

05.09.2020 - 02:54
Mál gegn Curtis Flowers sem ákærður var sex sinnum fyrir fjögur morð framin árið  1996 var látið niður falla í september 2020. Hann hafði setið inni í alls 23 ár.
 Mynd: Vicksburg Daily News
Sakir hafa verið felldar niður gegn Curtis Flowers, svörtum manni sem var dæmdur sex sinnum fyrir fjögur morð framin árið 1996. Hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu en hefur setið í 23 ár á bak við lás og slá.

Sami saksóknari, Doug Evans, sótti málið gegn Flowers í öll skiptin sex. Hann vék frá málinu í janúar vegna ásakana um að hafa vísvitandi komið í veg fyrir að þeldökkt fólk sæti í kviðdómi.

Flowers var látinn laus gegn tryggingu í desember síðastliðnum þótt möguleiki væri á annarri málshöfðun gegn honum. Ríkissaksóknari í Mississippi ákvað loks í gær að fella málið niður að beiðni Lynn Fitch, arftaka Evans.

Samkvæmt bandarískum lögum er óheimilt að sækja fólk aftur til saka hafi það verið sýknað en það kom ekki í veg fyrir að Flowers þyrfti sex sinnum að standa fyrir máli sínu.

Í fjögur skipti var Flowers dæmdur til dauða, síðast árið 2010. Í fyrstu þrjú skiptin ógilti Hæstiréttur Mississippi dóminn yfir Flowers vegna galla á málsmeðferð. Eftir það komst kviðdómur tvisvar ekki að sameiginlegri niðurstöðu og var því sendur á braut.

„Ég er loksins frjáls eftir að hafa þurft að þola það óréttlæti að sitja saklaus inni í 23 ár,“ segir Flowers í yfirlýsingu og bætti við að nú væri runninn upp dagurinn sem hann hefði óskað í bænum sínum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV