Hröð fjölgun Covid 19 tilfella á Indlandi

05.09.2020 - 19:19
epa08643813 A paramedic takes a nasal swab sample from a government employee in order to conduct Rapid Antigen test for Covid-19 in Srinagar, the summer capital of Indian Kashmir, 03 September 2020. The administration has started conducting Covid-19 test of the employees in the government offices.  EPA-EFE/FAROOQ KHAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Indland varð í dag þriðja landið þar sem 4 milljónir tilfella hafa greinst af Covid 19 sjúkdómnum. Faraldurinn hefur verið á hraðri uppleið þar undanfarið, ólíkt flestum öðrum löndum, og um 30% tilfella sem greinast í heiminum greinast þar.

Ríflega 26,6 milljónir Covid 19 tilfella hafa nú greinst í heiminum - rúmar sex milljónir í Bandaríkjunum og rúmar fjórar í Brasilíu. Í gær varð Indland þriðja landið þar sem yfir fjórar milljónir tilfella hafa greinst.

Útgöngubann var sett á á Indlandi í mars, en þar sem það kostaði líka sitt sáu stjórnvöld sig knúin til að aflétta því. Eftir það hefur útbreiðslan snaraukist, einkum í þéttbýlum þorpum. En það er líka verið að taka mun fleiri sýni en áður.

„Almenningur gerir sér ekki miklar grein fyrir því að það er ekki búið að útrýma kórónuveirunni ennþá. Fólk heldur að þar sem búið er að aflétta útgöngubanni sé faraldurinn búinn. Maður sér fólk ekki fylgja fjarlægðarmörkum eða gæta annarra varúðarráðstafana,“ segir Sunil Kumar leigubílstjóri.

Rétt er þó að taka fram að miðað við íbúafjölda eru tilfellin ríflega fimm sinnum fleiri í Bandaríkjunum og Brasilíu en á Indlandi, enda búa þar 1,4 milljarðar manna. Þar togast verulega á sóttvarnarsjónarmið og efnahagssjónarmið, enda hefur efnahagurinn dregist saman um rúm 20% vegna faraldursins. Götusalar berjast til dæmis fyrir því að allt verið opið til að hægt sé að skapa atvinnu.

Staðan á Indlandi hefur töluverð áhrif á stöðu faraldursins í heiminum. 
Tökum dæmi af nokkrum löndum sem hafa verið í umræðunni.

Í Svíþjóð eru ný tilfelli þriðjungur af því sem var fyrir tveimur vikum, eða um 130 á dag. Tilfellum hefur því fækkað mikið.

Í Frakklandi stendur önnur bylgja nýrra tilfella yfir núna en þar greinast um 7.000 manns á dag, ívið fleiri en í vor. Þar er ekki að sjá að smitum sé að fækka eða fjölga mikið.

Í Bandaríkjunum er seinni bylgjan einnig með fleiri dagleg tilfelli en sú fyrri, en þeim er þó að fækka - eru nú um 40 þúsund en voru um 70 þúsund um miðjan júní.

Á Indlandi er þróunin öðruvísi. Þar hefur aðeins ein bylgja risið, og það stanslaust upp á við. Met eru slegin nánast á hverjum degi í daglegum smitum og í gær voru þau um 86 þúsund.

Þetta skýrir að miklu leyti stöðuna þegar heimsbyggðin er skoðuð. Það er ekki að sjá neina skarpa niðurleið og fjöldi daglegra tilfella hefur verið 200-300 þúsund undanfarinn einn og hálfan mánuð. Smit á Indlandi eru nú um 25-30% af heildarfjölda smita og því má draga þá ályktun að þau séu að koma í veg fyrir að tilfellum fækki á heimsvísu.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi