Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fyrsta einkamálið vegna Ischgl fyrir dóm í september

05.09.2020 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV
Peter Kolba, sem er í forsvari fyrir neytendasamtök í Austurríki, ætlar að láta reyna á skaðabótaskyldu austurrískra stjórnvalda vegna aðgerðarleysis á skíðasvæðinu Ischgl í tengslum við COVID-19. Verði niðurstaðan hagfelld gætu stjórnvöld þurft að greiða hundruð milljóna evra í skaðabætur til nærri sex þúsund ferðamanna sem sýktust af kórónuveirunni á skíðasvæðinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri umfjöllun breska blaðsins Guardian. Þar er þeirri spurningu velt upp hvort rekja megi upphafið að fyrstu bylgju farsóttarinnar til austurríska skíðasvæðisins sem íslensk stjórnvöld voru fyrst til að vara við.

Kolba hefur þegar óskað eftir sakamálarannsókn á því af hverju var ekki fyrr gripið til aðgerða og hvort hagsmunir ferðaþjónustunnar í Ischgl hafi verið teknir fram yfir heilsu ferðamanna. Saksóknarinn í Innsbruck fer með rannsókn málsins og er enn að safna gögnum. 

Í grein Guardian kemur fram að Kolba ætli að höfða einkamál fyrir dómi í byrjun þessa mánaðar. Verði niðurstaðan hagfelld gæti skaðabótaskylda austurríska ríkisins numið hundruðum milljóna evra. 

Í Guardian er meðal annars vitnað í tölvupóst sem íslensk kona sendi á hótel í Ischgl í byrjun mars. Þar greinir hún frá því að hún hafi verið á skíðasvæðinu með 25 Íslendingum. Hún ásamt tveimur öðrum úr fjölskyldu hennar hafi greinst með COVID-19 eftir komuna til Íslands.

Í tölvupóstinum segist konan ekki vera viss um hvort hún hafi smitast á skíðasvæðinu eða í fluginu á leiðinni heim. Hún hafi fengið þær upplýsingar að í fluginu hafi verið ferðamaður á leiðinni heim frá Ítalíu sem síðar hafi greinst með kórónuveiruna.

Blaðamaður Guardian bendir á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda í Tíról við hugsanlegri útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á svæðinu hafi byggst á  þessari einu setningu úr tölvupósti íslensku konunnar; að hugsanlegt væri að þau hefðu smitast í fluginu á leiðinni heim. Yfirlýsingu landlæknis Tíróls sé meira að segja enn að finna á vef embættisins.

Blaðamaður Guardian ræðir í grein sinni við fjölda fólks sem greindist með kórónuveiruna eftir að hafa verið á skíðum í Ishcgl.  Þar kemur meðal annars fram að íslenska konan sem sendi tölvupóstinn var hluti af 25 manna hópi frá Íslandi.  Hann skiptist í þrjá hópa sem þekktist innbyrðis.

Í þessum hópi var  Haraldur Eyvind Þrastarson. Í umfjöllun Guardian kemur fram að þegar einn úr hópnum fór að sýna einkenni þann 26. febrúar og annar í fluginu á leiðinni heim hafi hópurinn verið meðvitaður um að hann þyrfti að vera á varðbergi.

Haraldur segir við Guardian að hann hafi farið í sýnatöku 3. mars og daginn eftir kom í ljós að hann ásamt 15 öðrum úr þessum 25 manna hópi hafði sýkst af kórónuveirunni.  Daginn eftir var Ischgl sett á lista yfir hááhættusvæði af íslenskum yfirvöldum.