Ekki nokkur leið að lifa af 220.000 krónum á mánuði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands styður kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hærri atvinnuleysisbætur en harmar á sama tíma að kjör öryrkja séu ekki bætt, samkvæmt ályktun stjórnar bandalagsins á fimmtudag. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir öryrkja mæta sinnuleysi hjá stjórnvöldum, örorkulífeyrir sé langt undir lágmarkslaunum.

Meginþorri örorkulífeyrisþega fær um 255.000 krónur á mánuði fyrir skatt, eftir skatt er greiðslan um 220.000 krónur. „Það sér það hver heilvita maður að það er ekki nokkur leið fyrir venjulegt fólk að lifa af 220.000 krónum á mánuði þannig að við höfum kallað eftir þessu ítrekað og biðlað til stjórnvalda að nú verði að stíga þungt inn og bæta kjör fatlaðs fólks en staðreyndin er því miður sú að við búum ekki við réttlæti, heldur tómlæti og sinnuleysi stjórnvalda, því miður,“ segir Þuríður Harpa.

Eru mjög döpur yfir því að kjörin séu ekki bætt

Í ályktun stjórnarinnar segir að allt frá bankahruni hafi kjör öryrkja dregist verulega aftur úr lægstu launum og atvinnuleysisbótum. „Við sáum það að þessi hópur, hann er skilinn eftir eina ferðina enn og  eins og kemur fram í ályktuninni, tökum við undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun atvinnuleysisbóta en um leið verðum við mjög döpur og okkur er mjög þungt að sjá það að það gerist ekkert varðandi kjör öryrkja, sem er þessi hópur sem hefur beðið eftir hækkun frá því í síðustu kreppu.“ 

Telur að lágmarkið ætti að vera 400.000 krónur 

Atvinnuleysisbætur eru 289.510 krónur á mánuði. Þuríður Harpa segir ljóst að allir þurfi að minnsta kosti 400.000 krónur í laun fyrir skatta til að eiga fyrir helstu nauðsynjum, hvort sem það eru öryrkjar eða fólk í vinnu. „Ég held að í okkar samfélagi í dag séu fáir að framfleyta sér á lægri upphæð.“ Þuríður Harpa bendir á að alveg eins og fólk sem lendir í því að missa vinnuna, þá sé fólk sem lendi í því að geta ekki unnið vegna örorku, með skuldbindingar, til dæmis vegna húsnæðis, og með börn á framfæri. Það sé útilokað að standa við skuldbindingar þegar fólk fær um 220.000 krónur útborgaðar á mánuði.  

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins voru í reglulegum samskiptum við ráðherra áður en kórónuveirufaraldurinn braust út, að sögn Þuríðar Hörpu. Þau hafi ekki rætt við Ásmund Einar Daðason í nokkurn tíma en að hún búist við að funda með honum á næstunni. Þá hafi þau einnig óskað eftir fundi með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra til að ræða þessi mál. Þuríður Harpa segir að ráðherrar viti mætavel hve illa öryrkjar standi fjárhagslega. „Það kom mjög berlega í ljós í kófinu þegar við sáum svart á hvítu, að okkar hópur, öryrkjar, er það fólk sem fer hérna huldu höfði í samfélaginu og leitar á náðir hjálparsamtaka um mat og nauðsynjar fyrir sig af því að þau hafa ekki efni á því að borða og það er bara óásættanlegt í okkar ríka samfélagi.“

Eftirfarandi er ályktun stjórnar Öryrkjabandalagsins:

Stjórn Öryrkjabandalagsins tekur undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun atvinnuleysisbóta en harmar að á sama tíma er ekki minnst einu orði á kjör öryrkja, þess hóps sem beðið hefur réttlætis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í þrjú ár. Ef kjör atvinnuleitenda eru talin slæm, er leitun að því lýsingarorði sem sameinar þá einangrun og fátækt sem einkennir líf öryrkjans. Katrín, hversu lengi á fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu?

Allt frá árunum eftir fjármálahrun hafa kjör öryrkja dregist verulega aftur úr lægstu launum og atvinnuleysisbótum. Þrátt fyrir almenna kaupmáttaraukningu yfir 5% frá árinu 2017, hefur kaupmáttur öryrkja nánast staðið í stað, á vakt ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi