Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Breiðablik upp í annað sæti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Breiðablik upp í annað sæti

05.09.2020 - 15:50
Einn leikur fór fram í Pepsi Max deild karla í dag þegar Fjölnir tók á móti Breiðablik í Grafarvoginum. Sigur Breiðabliks var í raun aldrei í hættu eftir að þeir náðu forystu snemma leiks. Breiðablik fer í annað sæti deildarinnar við sigurinn en staða Fjölnis á botninum er orðin ansi svört.

Blikar mættu mun ákveðnari til leiks og Daninn Thomas Mikkelsen skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins fjórar mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson átti þá góða sendingu inn í teig þar sem Mikkelsen var einn og óvaldaður þrátt fyrir að fjöldi Fjölnismanna hafi verið í teignum. Það kom svo í hlut Mikkelsen að leggja upp næsta mark, hann hamraði þá boltanum í slá og þaðan barst boltinn til Alexanders Helga Sigurðssonar sem var fyrstur til að átta sig og lagði boltann í autt markið.

Leikmenn Breiðabliks mættu nokkuð værukærir í seinni hálfleikinn og Fjölnismenn nýttu sér það og minnkuðu muninn á 66. mínútu með marki frá Grétari Snæ Gunnarssyni. Eftir markið gerðu Fjölnismenn sig nokkuð líklega til að jafna áður en að Thomas Mikkelsen gerði nánast útum leikinn með stórkostlegu marki á 76. mínútu. Eftir það var sigurinn aldrei í hættu og að lokum bættu Blikar fjórða markinu við, þar var á ferð Viktor Karl Einarsson eftir góðan undirbúning frá Gísla Eyjólfssyni. 

Með sigrinum fer Breiðablik í annað sæti deildarinnar með 23 stig eftir 12 leiki. Fjölnir er enn án sigurs á botni deildarinnar með fjögur stig eftir 13 leiki.