Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja skilmála lána með breytilegum vöxtum ólöglega

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skilmálar og framkvæmd lána með breytilegum vöxtum standast ekki lög. Þetta er mat Neytendasamtakanna sem nú hafa sent stóru bönkunum bréf þar sem þess er krafist að skilmálar lánanna séu lagfærðir. Sömuleiðis skuli leiðrétta hlut þeirra sem hallað hefur verið á.

Niðurstöður greiningar sem Lögfræðistofa Reykjavíkur vann fyrir Neytendasamtökin er að framkvæmd bankanna varðandi vaxtabreytingar á lánum með breytilega vexti uppfylli í mörgum tilfellum ekki þær kröfur sem gera þurfi um gagnsæi.

Jafnframt hafi bankarnir ekki lækkað vexti í samræmi við eigin ákvæði í lánasamningum. 

Mat Neytendasamtakanna er að mikilvægt sé að ákvarðanir og breytingar á vaxtastigi lána séu skiljanlegar og gagnsæjar. Máli sínu til stuðnings vísa samtökin til úrskurða Neytendastofu, dóma Hæstaréttar og Evrópudómstólsins.

Þótt ekki sé alltaf um háar fjárhæðir að ræða sé um verulega upphæðir að ræða samanlagt segir í tilkynningu frá Neytendasamtökunum.