Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tekist á um ríkisábyrgð - Telur tapið ríkisvætt

04.09.2020 - 19:55
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. - Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Þingfundur stendur yfir á Alþingi þar sem frumvarp fjármálaráðherra um 15 milljarða ríkistryggða lánalínu til Icelandair er til umfjöllunar. Búist er við því að þingfundur standi eitthvað fram á kvöldið. Málið er umdeilt. Vonir standa til þess að hægt verði að afgreiða það síðar í kvöld og ljúka þessu síð-sumarsþingi.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt frumvarpið og Píratar leggjast alfarið gegn því. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir Pírata telja áætlanir flugfélagsins óraunhæfar og ekki byggja á því að það verði eðlileg samkeppni á flugmarkaði. „Við teljum þessa leið ríkisstjórnarinnar vera klassíska leið til þess að ríkisvæða tapið og einkavæða gróðann, við styðjum það ekki,“ sagði Þórhildur Sunna í viðtali við Ölmu Ómarsdóttur, fréttmann, í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum. 

„Það skapar auðvitað mjög vondan hvata fyrir ríkissjóð að vera kominn í þá stöðu að hafa hvata að því að það myndist ekki samkeppni hérna til þess að það reyni ekki á ríkisábyrgðina. Sömuleiðis þá teljum við þetta, að öllu ofangreindu, vera fjárhættuspil með eigur lífeyrissjóðanna, með ríkissjóð og sömuleiðis með fé ríkisbankanna og við teljum það vera óforsvaranlega áhættu sem að verið er að taka. Og ég spyr bara hvað varð um að borga ekki skuldir óreiðumanna,“ segir Þórhildur Sunna. 

Einnig var rætt við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, í fréttatímanum. Hann var spurður að því hvers vegna það væri nauðsynlegt að veita Icelandair ríkisábyrgð. „Það er mat forsvarsmanna félagsins að til þess að þau geti farið í þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem að ráðist var í að þá þurfi á bak við hana að vera ríkisábyrgð fyrir lánalínum sem að kann að reyna á ef hlutirnir þroast á verri veg heldur en að félagið er að leggja upp með. Þetta sé nauðsynlegt tli þess að klára hlutafjáraukningu og aðra fjárhagslega endurskipulagningu.“

Segir að tekið hafi verið tillit til gagnrýni

Fjármálaráðherra telur að tekið hafi verið tillit til gagnrýni á frumvarpið. „Við erum að stilla því þannig upp að það sé félagsins að fara í fjárhagslega endurskipulagningu og hluthafar, væntanlega nýir fjárfestar, þeir verða að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvort að þeir hafi trú á viðskiptamódelinu og það er þannig að ríkisstjórnin segir: Það er eingöngu ef að markaðurinn hefur trú á áætlunum félagsins sem að við erum tilbúin að veita ríkisábyrgð á bak við lánalínu sem að ekki er gert ráð fyrir að reyni á, en við þurfum auðvitað að vera við því búin ef að hlutirnir þróast þannig,“ segir Bjarni kveðst hafna því að ríkið sé að ganga þannig fram að það sé verið að veita einhvern sérstakan gæðastimpil á áætlanir félagsins. „Það er þvert á móti, markaðurinn verður að eiga fyrsta svarið.“