Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir meirihlutann í borginni „ulla á ríkisstjórnina“

04.09.2020 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ríkisstjórnina hafa látið plata sig út í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, borgarlínuna. Hún hafi ekki fyrr verið búin að skrifa undir sáttmálann en að meirihlutinn í borginni „ulli á ríkisstjórnina“ og segi að ekki standi til að standa við þann hluta samkomulagsins sem snúi að Sundabraut. „Hvernig hyggst fjármálaráðherra bregðast við?“

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma við upphaf þingfundar í dag. 

Sundabraut rataði aftur í fréttirnar eftir að seðlabankastjóri lýsti því yfir á fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis að það væri stórundarlegt og ámælisvert að ekki hefði verið ráðist í uppbyggingu Sundabrautar. 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags-og samgönguráðs brást við þessum ummælum og sagði komandi kynslóðir eiga betra skilið en að 70 milljörðum væri varið í bílamannvirki með þremur mislægum gatnamótum.

Sigmundur Davíð vitnaði til orða Sigurborgar í fyrirspurn sinni á Alþingi og sagði hana meðal annars hafa sagt að: „skynsamlegra væri að nota peningana fyrir Sundabraut til að fjarlægja flugvöllinn í Vatnsmýri.“  Hann spurði ráðherra hvernig hann ætlaði að bregðast við þessum tilburðum borgarinnar „sem sýnir það eina ferðina enn að hún fer einfaldlega sínu fram?“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafnaði því að ríkisstjórnin hefði látið hafa sig út í eitthvað. Það sem skipti máli væri það stórátak sem til stæði að gera í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.   Eflaust myndi reyna á það að menn hefðu ólíka sýn hvernig væri best að ná markmiðum um öflugar almenningssamgöngur og umferðarmannvirki sem gengju upp.  „Ég skal vera alveg skýr, ef það kemur upp mikill ágreiningur um þetta samstarfsverkefni hefur það afleiðingar. “

Þingið hefði ekki áhuga á því ef bara hluti samkomulagsins næði fram að ganga en allt annað væri látið sitja á hakanum.

Sigmundur Davíð minnti ráðherrann á að það hefði gengið erfiðlega að fá meirihlutann til að setja inn ákvæði til að tryggja að ríkið greiddi ekki fyrir borgarlínuna nema staðið yrði við ákveðin loforð og þá sérstaklega Sundabraut.  Á endanum hefði það ekki tekist alveg. Það mætti eflaust rekja til þess að hluti ríkisstjórnarinnar hefði vitað að meirihlutinn í borginni myndi ekki standa við sitt.  „Það þarf viðbrögð. Viðbrögð borgarinnar kalla á viðbrögð ráðherra.“

Bjarni sagði að það myndi ekkert standa á sínum viðbrögðum ef á þetta reyndi.  „Það er algjört lykilatriði að þegar ríkið hefur veitt fjármagni til að fara í framkvæmdir og greiða úr umferðarhnútum þá ætlumst við til þess að málin hafi einhvern framgang.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV