Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Portland: Mótmæli og átök í 100 daga

Police officers detain a protester against right-wing demonstrators following an "End Domestic Terrorism" rally in Portland, Ore., on Saturday, Aug. 17, 2019. Although the main protest remained largely peaceful, some skirmishes erupted in the following hours and police detained multiple protesters. (AP Photo/Noah Berger)
 Mynd: AP images - AP
Um helgina eru 100 dagar síðan mótmæli hófust í Portland í Oregon en þau kviknuðu vegna dauða George Floyd, sem banað var af lögreglumanninum Derek Chauvin í maí síðastliðnum í Minneapolis. Mótmælendur segjast reiðubúnir að halda áfram fram að forsetakosningum í nóvember.

Mótmælendur hafa ítrekað lent í átökum við sérsveitir alríkisstjórnar Bandaríkjanna, sem sendar voru til borgarinnar í óþökk lögregluyfirvalda í Oregon og borgarstjórans í Portland, undir því yfirskini að vernda alríkisbyggingar fyrir skemmdum.

Átökin eru birtingarmynd þeirrar stöðu sem upp er komin víða um Bandaríkin í aðdraganda forsetakosninga, þar sem tveir pólar takst á. Um síðastliðna helgi lenti stuðningfólki Donald Trump saman við mótmælendur úr Black Lives Matter-hreyfingunni í miðborg Portland.

Bandaríkin brotin

Á hverju kvöldi síðustu 100 daga hafa mótmælendur safnast saman í miðborg Portland og að mestu leitast við að koma málstað sínum á framfæri með friðsamlegum hætti, en þeir hafa krafist úrbóta vegna kerfisbundins rasisma og lögregluofbeldis.

„Ef við viljum breyta kerfinu og afneita kerfisbundnum rasisma, verðum við að halda áfram að láta rödd okkar heyrast á götum úti, að minnsta kosti fram að kosningum.“ Þetta hefur AFP-fréttastofan eftir mómælanda sem ekki vill láta nafn síns getið. Hann bætir við að Bandaríkin hafi aldrei verið svona brotin.

Eftir að sérsveitirnar yfirgáfu borgina hefur dregið úr átökunum, ófriðurinn minnkað og mótmælin að mestu farið friðsamlega fram, ef undanskildir eru árekstrar og átök við stuðningsfólk Trump sem hefur komið saman í borginni síðustu þrjú laugardagskvöld.

Myndband sýnir Aaron Danielson skotinn

The Oregonian hefur birt myndband sem sýnir atvikið þegar hinn 39 ára Aaron Danielson var skotinn á götu úti þegar stuðningsfólki Trump og mótmælendum lenti saman í miðbæ Portland á laugardagskvöld. 

Myndbandið má hér fyrir neðan en ástæða er til að vara við efni þess.

Ætla ekki að hætta

Annar mótmælandi, hinn 30 ára Reese Monson, sem farið hefur fyrir Black Lives Matter-hreyfingunni í borginni, segir í samtali við AFP, að markmiðið sé ekki að brenna niður borgina. Sumir hefðu vissulega notað tilefnið til þess að eyðileggja og hvetja til ofbeldis, en mótmælin hefðu að mestu farið friðsamlega fram.

„Við höfum rétt á að mótmæla. Við höfum rétt á að tjá okkur og láta rödd okkar heyrast,“ segir Monson og heldur áfram: „Við ætlum ekki að hörfa. Við ætlum ekki að hlaupa í burtu eða flýja af vettvangi bara vegna þess að lögreglan segir okkur að hlaupa og fara.“

Átök ólíkra heima

Ted Wheeler, borgarstjórinn í Portland, hefur sakað Trump um árás á lýðræðið og að hann noti borgina sem pólitískan leikvang. „Síðustu viku hefur Trump notað borgina okkar sem svið til þess að koma sínum pólitísku áherslum á framfæri.“

Wheeler segir að borgarbúum sé stofnað í hættu með inngripi ómerktra sérsveita á vegum alríkisstjórnarinnar. „Herra forseti, alríkisstofnanir ættir þú aldrei að nota sem þinn eigin persónulega her.“

Fram kemur á vef The Oregonian að borgarstjórinn hafi þurft að flýja heimili sitt vegna óeirða og mótmæla fyrir utan. Meðal annars er kallað eftir afsögn borgarstjórans, þrátt fyrir tilraunir hans til að lægja öldurnar og leita sátta við Trump.

Liður í kosningabaráttu Trump

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ræddi við fréttastofu um stöðuna fyrr í sumar. Hún bjó í borginni og segir ógnvekjandi að sjá vini verða fyrir áverkum vegna mótmælanna.

Silja Bára segir að aðgerðir forsetans virðist hluti af því að búa til frásögn sem nýtist honum fyrir kosningarnar í nóvember. 

„Það styttist æ í kosningar og tilfinningin sem maður fær er að þetta sé hluti af því að búa til einhverskonar frásögn og myndmál sem að ratar auðvitað inn í fjölmiðla þannig að fólk sem býr fjær og óttast þessa stórborgarmenningu, fjölmenningu og stjórn demókrata. Það horfir á þetta og segir já það þarf sannarlega að mæta þessu með hörku og Trump er sá sem við getum treyst til þess að gera það,“ segir Silja Bára.

Borgin umsetin

Trump hefur lýst ástandinu þannig að borgin sé undir umsátri innlendra hryðjuverkamanna. Hann hefur varað við því að ef Joe Biden standi uppi sem sigurvegari í nóvember, muni ófriðarbál loga í fleiri borgum víða um Bandaríkin.

Trump segist tilbúinn að senda þjóðvarðliðið til Portland. „Við gætum lagað Portland á 45 mínútum, myndi ég segja. Það er rétt hjá íbúum Portland að mótmæla því borgarstjórinn veit ekkert hvað hann gerir. Hann er alveg ráðalaus,“ segir Donald Trump.