Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Portland: Grunaður skotinn til bana af sérsveit

04.09.2020 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Donovan Farley - VICE
Sérsveit á vegum alríkisstjórnar Bandaríkjanna skaut í gærkvöld mann til bana, sem grunaður var um að hafa banað stuðningsmanni Donald Trump, í Portland í Oregon um síðastliðna helgi.

Þetta kemur fram á vef AP fréttastofunnar.

Michael Reinoehl, 48 ára fyrrum hermaður og tveggja barna faðir, var grunaður um að hafa skotið hinn 39 ára Aaron Danielson í bringuna þegar stuðningsfólki forsetans og mótmælendum sem kalla eftir réttlæti í garð svarta, lenti saman í miðbæ Portland á laugardagskvöld.

Óttaðist að vera stunginn

Í viðtali sem Vice-fréttastofan hefur birt, segist Reinoehl hafa skotið Danielson í sjálfsvörn, hann hafi óttast að vera stunginn og því hafi hann gripið til varna.

„Mér hefur verið ráðlagt að tjá mig ekki um þessa atburði. Ég geri það engu að síður, því mér finnst mikilvægt að heimurinn viti um það sem raunverulega er að gerast,“ segir Reinoehl í viðtalinu við blaðamanninn Donovan Farley sem sjá má hér að neðan.

„Ég átti engra kosta völ... ég meina... ég átti þann valkost að sitja hjá og fylgjast með þeim drepa svartan vin minn. En ég ætlaði ekki að láta það gerast.“

Átök tveggja póla

Reinoehl lýsti sjálfum sér á samfélagsmiðlum sem „100% Antifa“ og hafði reglulega tekið þátt í mótmælum gegn óréttlæti í garð svartra í Bandaríkjunum, á vegum Black Lives Matter-hreyfingarinnar.

Danielson bar derhúfu merktri Patriot Prayer, hóps hægri öfgasinna í Portland, sem skipulagt hefur aðgerðir til stuðnings Trump.

Skotinn til bana við handtöku

Sérsveitin sem veitti Reinoehl eftirför er á vegum US Marshall Service, sem leitar uppi og handtekur grunaða einstaklinga þvert á ríkjamörk. Reinoehl var eftirlýstur og veitt eftirför.

Hann var skotinn af lögreglumanni sem starfar með sérsveitinni, þegar tilraun var gerð til að handtaka Reinoehl í bænum Lacey í Washington-ríki, tæpum 200 kílómetrum frá Portland.