Páll þarf ekki að rífa legsteinasafnið strax

04.09.2020 - 09:29
Legsteinasafn Páls Guðmundssonar á Húsafelli sem honum var gert að rífa eftir málaferli 2020.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Niðurrif á legsteinasafni Páls Guðmundssonar á Húsafelli frestast um einn og hálfan mánuð, fram til tuttugasta og áttunda október. Tímann fram að því á að nýta til að reyna að ná lendingu um sameiginlega hagsmuni landeigenda á Húsafelli.

Páli var gert að rífa safnið fyrir fimmtánda september samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands sem féll um miðjan júlí. Byggt var á þeim rökum að ekki væri heimild fyrir húsinu í skipulagi. Stefnandi málsins var nágranni Páls og eigandi gististaðarins Gamla bæjar á Húsafelli. Síðan dómurinn féll hafa þeir fundað sín á milli með aðkomu Borgarbyggðar og nú gefa þeir sér rúmar sex vikur til viðbótar til að ná sátt um deiliskipulag á svæðinu.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri í Borgarbyggð, segir að með þessu þurfi ekki að rífa safnið strax.

„Það er þessi tími til 28. október sem þeir ætla að gefa sér til þess að ræða um mögulegar niðurstöður.“

Þá kemur ekki heldur til dagsekta fyrr en að þessum tíma liðnum.

„Næstu skref eru sem sagt að vinna tillögu að því hvernig ferlið verður. Við erum komin með útlínur en ætlum að leggja þau undir aðila máls,“ segir Þórdís.

Eruð þið vongóð um að það náist samkomulag?

„Það er kannski erfitt að tjá sig um það á þessum tímapunkti en við erum alla vega komin á þennan punkt sem er gott.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi