Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlutdeildarlán gætu leitt til hækkunar fasteignaverðs

04.09.2020 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Íbúðalánasjóður
Frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán var samþykkt á Alþingi í gærkvöld. Þeim er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum að eignast sína fyrstu íbúð. Hagfærðingur Landsbankans segir aðgerðirnar geta leitt til þess að fasteignir hækki í verði.

Hlutdeildarlán fela í sér að ríkið lánar tekjulágum 20 prósent af kaupverði fyrstu íbúðar. Þau eru til 25 ára og bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum, nema að tekjur viðkomandi fari yfir tekjumörk samfellt í þrjú ár á lánstímanum. Tekjur mega ekki vera meiri en rúmlega sjö og hálf milljón í árstekjur fyrir einstakling og rúmar tíu og hálf milljón hjá sambúðarfólki.

Skilyrði fyrir lánveitingu:

  • Lánin einskorðast við nýbyggingar
  • Einungis lán fyrir kaupum á íbúð undir skilgreindu hámarksverði
  • Einungis veitt fyrstu kaupendum eða þeim sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár
  • Einungis fyrir þá sem ekki eiga fyrir útborgun en standast greiðslumat
  • Afborganir húsnæðislána mega ekki vera umfram 40% ráðstöfunartekna

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans  segir hlutdeildarlánin fyrst og fremst nýtast þeim sem hafa lengi haft hug á að festa kaup á fasteign. Nú sé ríkið að leggja til ígildi 20 prósenta sem komi mörgum til góða. Hversu vel það heppnist velti á útfærslu sem er í höndum ráðherra hverju sinni. 

„Mér skilst að það liggi ekki alveg fyrir hvert verði hámarkskaupverð á þessum fasteignum, það er talað um að það eigi að byggja ákveðna tegund af íbúð, að það verði lögð áhersla á nýbyggingar. Þær eru að sjálfsögðu dýrari en þær íbúðir sem fyrir eru eldri þannig að það er nokkrum spurningum ósvarað að mínu mati.“ segir Una.

Nýtist vonandi þeim sem eru fastir á leigumarkaði

Eitt af þeim skilyrðum sem sett eru fram er að lánað sé fyrir nýbyggingum. Velferðarnefnd Alþingiss lagði til í umsögn sinni við frumvarpið að á landsbyggðinni megi lána til kaupa á hagkvæmum eldri íbúðum sem hafi fengið svo gagngerar endurbætur að jafna megi við ástand nýrrar íbúðar. Þetta rökstyður nefndin með því að minna hafi verið um uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni vegna misvægis milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Una segir að ekki allir sem kaupi sína fyrstu eign séu í stakk búnir til að kaupa nýtt húsnæði.

„Það er vissulega ekki þannig, en þarna á greinilega að hvetja til uppbyggingar á ákveðinni tegund af nýjum íbúðum sem henta fyrstu kaupendum. Það er talað um ákveðnar kröfur um hagkvæmni og þá stærðarhagkvæmni væntanlega líka út frá verðlagi. Hver setur þau viðmið mun væntanlega  hafa mikið  um þetta úrræði að segja og hvernig tekst til með þetta.“ segir Una.

Þar vísar hún til þess að það sé ráðherra að ákveða reglugerð hverju sinni. Hún segir að aðgerðirnar séu til þess fallnar að hvetja til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum.

„Vonandi mun þetta helst nýtast þeim sem vilja kaupa fasteign, geta sýnt fram á að geta staðist greiðslur af lánum, þá til dæmis þá sem hafa lengi verið á leigumarkaði, verið að borga mánaðalega greiðslu og ekki náð að safna sér fyrir útborgun, en vilja kaupa sér fasteign. Þetta mun vonandi koma til með að aðstoða þetta fólk. Það kemur fram í þingskjölum að umsækjendur þurfa að sýna fram á að geta ekki fjármagnað kaup með öðru en þessum hlutdeildarláni. Í sjálfu sér er jákvætt að það sé verið að koma með úrræði sem eru til þess fólgin að aðstoða fólk við að eignast fasteign sem hefur lengi viljað gera það, en maður á eftir að sjá hvernig þetta tekst til.“ segir Una. 

Gæti leitt til hækkunar fasteignaverðs

Ef margir færast af leigumarkaði og notfæra sér úrræðið er viðbúið að eftirspurn eftir fasteignum aukist. Una segir að áhrif úrræðisins á fasteignamarkaðinn eigi eftir að koma í ljós.

„Eðli málsins samkvæmt þá eru svona eftirspurnarhvetjandi aðgerðir, þær geta leitt til verðhækkunnar, en þarna er líka verið að tryggja aukið framboð sem vegur á móti þessum áhrifum til hækkunnar íbúðarverða. Akkúrat núna höfum við verið að sjá vaxtalækkanir og íbúðaverða hefur verið að hækka meira en maður hefur átt von á í kreppuástandi, en eins og ég segi þá er erfitt að meta áhrif af þessarri aðgerð núna af því að þetta mun kannski ekki koma til framkvæmda núna ef það er verið að leggja áherslu á íbúðir sem á eftir að byggja.“ segir Una.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV