Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjárhagsaðstoðin kostar borgina milljarði meira

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg ver milljarði meira í fjárhagsaðstoð í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þeim sem fá slíka aðstoð hefur fjölgað mikið milli ára. Atvinnulaust fólk án bótaréttar er stór hluti hópsins.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri, segir að kórónuveirufaraldurinn sé helsta skýringin. „Við erum að sjá gríðarlega mikla aukningu í fjárhagsaðstoð, 25 - 30% miðað við okkar áætlanir, þá vorum við að áætla 2,6 milljarða. En miðað við fyrstu 6 mánuði ársins erum við 450 milljónum framyfir. Þannig að við búumst við því að við förum framyfir um einn milljarð. Úr 2,6 upp í 3,6.“

Í júlí fengu rúmlega 1.400 fjárhagsaðstoð frá borginni, en gert hafði verið ráð fyrir um þúsund. Áætlað er að fjöldinn verði kominn yfir 1.500 í lok árs. Þeim sem eru atvinnulausir án bótaréttar hefur fjölgað mest, þeir voru 379 fyrstu 6 mánuði ársins í fyrra en voru 676 á sama tímabili í ár.

„Við erum auðvitað að sjá stóra hópa af fólki, sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, fólk er kannski nýkomið úr skóla eða hefur nýhafið störf, til dæmis erlendir íbúar sem komu hingað til að vinna og unnu kannski í stuttan tíma áður en COVID-krísan skall á. Síðan hefur líka fjölgað í hópnum sem fær lán frá okkur og það er hópur sem sem á rétt hjá Vinnumálastofnun en er ekki búinn að fá úrlausn sinna mála vegna þess að biðtíminn þar hefur verið gríðarlega langur,“ segir Regína.

Samkvæmt samantekt Velferðarsviðs eru ungir karlar yfir helmingur þeirra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í ár og Regína segir að þannig hafi það verið lengi. 37% eru með erlent ríkisfang, rúm 60% eru með grunnskólamenntun og minni menntun og um þriðji hver er á aldrinum 30-39 ára. Þá hefur ungu fólki fjölgað. Regína segir mikla þörf á úrræðum.

„Ég vona svo sannarlega að okkur beri gæfa til, bæði sveitarfélögin og ríkið, að setja af stað atvinnuátak til þess að aðstoða fólk við að komast í vinnu og vera virk.“