Falleg tímaskekkja sem er hressandi að gleyma sér í

Mynd: . / Bill and Ted Face the Music

Falleg tímaskekkja sem er hressandi að gleyma sér í

04.09.2020 - 09:28

Höfundar

Kvikmyndarýnir Lestarinnar er mátulega hrifinn af þriðju myndinni í Bill & Ted-bálknum sem sýnd er nú næstum þrjátíu árum á eftir þeirri síðustu. Hann segir fyrri hlutann þó mun sterkari en hinn síðari þar sem hann hefði viljað sjá eilítið persónulegri lokapunkt.

Gunnar Theódór Eggertsson skrifar:

Mikið er gaman að fá loksins að fjalla um kvikmynd sem verið er að sýna í kvikmyndahúsum. Ég hafði ekki farið í bíó síðan í febrúar. Þar að auki voru þetta langþráðir endurfundir við gamla kunningja, sjálfa Villa og Tedda, eða Bill S. Preston Esq. og Theodor Logan úr hljómsveitinni Wyld Stallyns, Vylltu folunum, sem ferðuðust fram og aftur í tímann og hittu frægt fólk úr mannkynssögunni, heimsóttu himnaríki og helvíti og djömmuðu með dauðanum, í kvikmyndunum Bill & Ted's Excellent Adventure frá 1989 og Bogus Journey frá '91. Báðar myndir voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér í æsku og hlutu ákveðinn költ-stimpil síðar meir. Vissulega er alltaf áhyggjuefni þegar framhaldsmynd kemur svo löngu síðar. Tæp þrjátíu ár eru síðan við kvöddum þá félaga en ég fór á nýjasta ævintýrið, Bill & Ted Face the Music, með töluverðri tilhlökkun, því ég vissi að myndin væri ástríðuverkefni þeirra sem stóðu að upprunalegu myndunum, og hljómaði fjarri því að vera gerð bara til að græða einhvern pening.

Myndin er skrifuð af sömu handritshöfundum og gerðu gömlu myndirnar og það tók langan tíma að fjármagna verkefnið og koma því í gang. Alex Winter, sem leikur Bill, hefur lítið sem ekkert leikið síðustu tvo áratugi og einbeitt sér frekar að leikstjórn og heimildarmyndagerð. Keanu Reeves, sem leikur Ted, er ein skærasta kvikmyndastjarna heimsins og löngu búinn að segja skilið við ungæðislega rokkhausana. Orðrómar um nýja Bill og Ted mynd hafa verið á kreiki árum saman og spurningin er því: Var biðin þess virði? Og kannski enn fremur: Hvaða erindi eiga Vylltu folarnir við okkar samtíma?

Táknsaga brostinna æskudrauma

Grunnhugmynd gömlu myndanna var að þessir hæfileikalausu rokklúðar ættu eftir að breyta framtíðinni, koma á heimsfriði og sameina allt mannfólk í söng með því að semja eitt stórkostlegt lag og undir lok síðari myndarinnar virtust þeir hafa yfirstigið allar hindranir og vera á greiðri leið í átt að velgengni og heimsfrægð. En nú eru þeir orðnir miðaldra karlar sem hafa enn ekki samið rétta lagið og lifa undir stöðugri pressu, því tíminn líður og þeir hafa ekki staðið sig í stykkinu.

Bill & Ted Face the Music tekur upp þráðinn úr fyrri myndunum og er þannig áframhald á brandara sem gerði grín að útópískum hugmyndum um tónlist og frið í rokksögunni, bæði hvað varðar ástarboðskap hippatímans og stórtónleika níunda áratugarins sem áttu að breyta heiminum. Þetta er líka táknsaga fyrir gang lífsins og breytta, jafnvel brostna æskudrauma, því Villi og Teddi eru, sem betur fer, orðnir gamlir, og það er hluti af persónusköpuninni. Þeir trúa enn á mátt hins góða, eru yfirmáta jákvæðir og hressir, en tíminn er á þrotum, og þeir neyðast til að stökkva æ lengra fram í framtíðina í örvæntingarfullri leit að laginu sem á að laga heiminn, alveg þar til þeir mæta sjálfum sér háöldruðum og rúmföstum.

Bjarga heiminum með góðri tónlist

En myndin er þó ekki laus við endurtekningu á fyrri myndunum, nema það gerir hún í gegnum dætur tvíeykisins, Villu og Teddu, sem fá það hlutverk að ferðast um tímann í leit að frægu tónlistarfólki, svo bæði Mozart og Jimi Hendrix fái nú að spila með pöbbum þeirra í framtíðinni. Bill & Ted Face the Music er þannig til helminga framhaldsmynd og endurgerð, og hún er ójöfn og yfirfull af þráðum og pælingum tengdum tímaflakki og fjölradda frásögn. Myndin nær samt því mikilvægasta fram, persónurnar eru góðar og búnar að þróast, handritið er létt og fyndið og tónninn er algjörlega í harmóníu við forverana. Á lokasprettinum fer hún þó út í yfirmáta mikla vitleysu og maður fær á tilfinninguna að sumar aukasögurnar hafi verið styttar um of, og þær hefði betur mátt lengja eða einfaldlega sleppa.

Fyrri hlutinn er langsterkastur, senurnar þar sem vinirnir rífast við sjálfa sig í framtíðinni eru frábærar og fjölskyldudýnamíkin skemmtileg. Svo fer allt að snúast um að bjarga heiminum og þá endum við á svo kunnuglegum slóðum að jafnvel þótt lokaútfærslan sé áhugaverð sem slík, þá er hún það speisuð og skipulagslaus að ég hefði mun frekar viljað sjá persónulegri lokapunkt í þessari annars epísku sögu. Engu að síður þótti mér afar gaman að sjá þá félaga aftur saman á stóra tjaldinu, og sérstaklega Alex Winter, sem stelur senunum ítrekað frá Keanu. Bill & Ted Face the Music er á sinn hátt frekar falleg tímaskekkja, því miðað við allt sem er í gangi nú um stundir er hressandi að gleyma sér aðeins í heilnæmri sögu um að hægt sé að bjarga heiminum með góðri tónlist.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Afbyggir ranghugmyndir og hundahatur Íslendinga

Kvikmyndir

Merkileg mynd þó tónninn flökti um víðan völl

Kvikmyndir

Dæmisaga og Draugabær í heimabíói

Kvikmyndir

Streitubíó með Adam Sandler