Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Endurnýja Lundarskóla fyrir 1,6 milljarða

04.09.2020 - 16:02
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Starfsemi Lundarskóla á Akureyri hófst á réttum tíma í haust. Hluta skólans var lokað í vor vegna myglu. Kostnaður við bráðabirgðalagfæringar og flutninga á milli stofnana í sumar er 150 milljónir króna. Gerðar verða gagngerar endurbætur á skólanum og er kostnaður metinn á 1,6 milljarða króna.

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að veita umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar 150 milljóna króna viðbótarframlag vegna framkvæmda við Lundarskóla í sumar og flutnings hluta starfseminnar í Rósenborg og Íþróttahöllina. 

Mygla og allsherjar endurnýjun

Fyrir páska kom í ljós mygla í hluta skólabyggingarinnar. Þeim hluta var lokað og nemendur fluttir í annað húsnæði. Í vor var svo ákveðið að flýta endurnýjun á húsnæði skólans sem var á fjárhagsáætlun til næstu fjögurra ára. Í stað þess að lagfæra aðeins skemmdir vegna myglu verður farið í gagngera endurnýjun á skólanum og er kostnaðurinn metinn á 1,6 milljarða króna. Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að þessi allsherjarendurgerð vegi miklu þyngra í framkvæmdinni en viðgerðir vegna myglu. Kostnaður við þær væri um 300 milljónir króna. 

Allt að 750 milljónir í framkvæmdina í vetur

Álmur skólans eru tvær. Í sumar voru gerðar bráðabirgðalagfæringar á B-álmu svo hægt væri að kenna þar í vetur. Húsið var hreinsað, gólfefni endurnýjuð og veggir málaðir. Á næstu vikum verður allsherjarendurnýjun á A-álmu boðin út. Andri segir að áætlanir geri ráð fyrir um 700-750 milljónum króna í þá framkvæmd og á verkinu að vera lokið í ágúst 2021.

Í framkvæmdinni felst m.a. endurnýjun á þaki, loftræsingu, raf- og tölvulögnum, hljóðkerfi, brunakerfi, loftklæðningum, gólfefnum, hurðum og felliveggjum. „Þetta er svipuð endurgerð og þegar hefur farið fram í B- og D-álmu Glerárskóla og stafar fyrst og fremst af því að báðir skólar eru orðnir 45 til 50 ára gamlir og kominn tími á endurnýjun. Í Lundarskóla bætist við að gluggar á neðri hæð verða síkkaðir og landið utan við lækkað til að auka náttúrulega birtu,“ segir Andri. 

Nýr skóli hefði kostað milljarði meira

Þær bráðabirgðalagfæringar sem gerðar í í B-álmu nú í sumar munu ekki nýtast til framtíðar þar sem sams konar endurbætur eru á dagskrá þar næsta vetur. Plássleysi skólans næstu tvö ár eru leyst með því að færa 7.-10. bekk í Rósenborg. Þar voru líka gerðar endurbætur í sumar til að undirbúa skólastarfið, meðal annars skipt um loftklæðningar og gólfefni, loftræsting endurbætt og veggir málaðir. Sú starfsemi sem var þar fyrir var færð í Íþróttahöllina og ráðhús bæjarins. Andri segir að kostnaður við að byggja nýjan skóla hefði verið metinn á um milljarði meira en kostnaður við endurbætur. 

Margt sem þurfti að ganga upp

Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri Lundarskóla, er hæstánægður með að allt hafi gengið upp og skólastarf haf getað hafist á réttum tíma. Aðeins allra bjartsýnasta fólk hefði haft trú á því að það tækist þegar framkvæmdir hófust í júní. Allir hafi lagt sitt af mörkum og umhverfis- og mannvirkjasvið eigi hrós skilið fyrir framkvæmdirnar.

Elías Gunnar segir að margt hafi þurft að ganga upp, ekki aðeins við framkvæmdir og endurbætur heldur líka við praktíska hluti og skipulag. Nemendur í Rósenborg þurfi til að mynda að fara í mat í Brekkuskóla og listgreinar eru kenndar í handverksmiðtöðinni Punktinum sem er á neðstu hæð í Rósenborg. Aðstaða nemenda sé góð miðað við aðstæður og það sé mikill kostur að unglingastigið geti allt verið saman.