Þegar þessi staða kom upp voru tökur á kvikmyndinni The Batman nýhafnar aftur í Hertfordskíri í nágrenni Lundúna eftir að hafa verið frestað frá því í mars vegna COVID-19 heimsfaraldursins – sem nú hefur náð í skottið á Pattinson. Hann neyðist til að fara í einangrun í rúmar tvær vikur og frestast tökur því sem því nemur. Breska ríkisstjórnin gaf í maí leyfi fyrir áframhaldi á kvikmyndaframleiðslu í landinu með ströngum skilyrðum um samskiptafjarlægð, öryggisþjálfun og tíðum prófunum.
Það er Matt Reeves sem leikstýrir The Batman en auk Pattisons fara Zoë Kravitz, Paul Dano og Colin Farrell með stórar rullur. Myndin hefur verið á teikniborðinu um árabil. Fyrst átti Ben Affleck að túlka ólundarlegu ofurhetjuna en hann féll úr skaftinu á síðasta ári. Þetta er þriðja stóra kvikmyndaútgáfa Leðurblökumannsins en þríleikur Christophers Nolans með Christian Bale í aðalhlutverki sem kom út frá 2005 til 2012 naut gríðarlegra vinsælda. Upphaflega átti The Batman að rata í bíóhús í júní á næsta ári en að teknu tilliti til Covid-tafa er nú stefnt á frumsýningu í október 2021.