Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

50 sentimetrar af blautum og þungum snjó

04.09.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Það var rólegt hjá björgunarsveitum og lögreglu í nótt þrátt fyrir appelsínugula veðurviðvörun. Um 50 sentimetra lag af snjó var á Biskupshálsi í morgun og krapi á öðrum fjallvegum norðaustanlands.

Appelsínugul veðurviðvörun var í gildi í nótt á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi vegna norðanhríðar. Víða var hvasst í gær og nótt með talsverðri úrkomu og snjókomu til fjalla, sérstaklega á heiðum á Norðausturlandi en það frysti hvergi í byggð á láglendi.

Fólk hlustaði á viðvaranir

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg virðist fólk hafa meðtekið viðvaranir og tryggt sitt nærumhverfi. Nokkur fljótleyst foktengd verkefni hafi komið upp, þó engin þar sem veðrið var verst. Þá var allt með kyrrum kjörum hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra og á Austurlandi.

Þungur og blautur snjór

Eftir nóttina var krapi á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði. Um 50 sentimetra lag var af snjó á Biskupshálsi og þungfært. Þjóðvegur eitt liggur um Biskupsháls sem er í Víðidal á Fjöllum, rétt austan við Grímsstaði, á mörkum Norður-Múlasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu. Þar var Hólmgeir Eyfjörð við mokstur þegar fréttastofa náði tali af honum í morgunsárið. Hann segir mokstur hafa gengið vel, en heldur seinlega þar sem snjórinn sé blautur og þungur. 

Það sé vetrarlegt um að litast og talsverð umferð sem hafi aukist mikið eftir því sem leið á morguninn. Hann gerir ráð fyrir að halda áfram að moka í dag á meðan það renni þar upp frá. 

Áfram vont veður

Gular veðurviðvaranir eru í gangi frá Norðurlandi eystra til suðausturlands frammá kvöld. Áfram er varað við hvassri norðan hríð, slyddu og snjókomu í fjöllum. Á Austfjörðum og Suðausturlandi gætu vindhviður náð allt að 35 m/s og ferðalangar með aftanívagna beðnir að hafa varann á.