Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

200 mega koma saman og eins metra regla tekur gildi

04.09.2020 - 11:20
Mynd með færslu
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.  Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur gefið út auglýsingu um að rýmri samkomutakmarkanir taki gildi mánudaginn 7. september. Þá mega koma saman 200 í stað 100 og tveggja metra nálægðarreglu verður breytt í eins metra nálægðarreglu. Hingað til hefur eins metra nálægðarregla gilt í framhalds- og háskólum. Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sem Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sendi Svandísi á miðvikudag.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að eins metra fjarlægð milli fólks minnkaði líkur á smiti fimmfalt. 

Þá breytist hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum úr því að vera helmingur af leyfilegum hámarksfjölda í 75 prósent. Íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi getur farið fram þrátt fyrir eins metra regluna því þar verða snertingar heimilaðar. Engin breyting verður gerð á opnunartímum vínveitingastaða, þeir mega áfram vera opnir til klukkan 23:00. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV