Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

115 milljarða halli ríkissjóðs er umfram áætlun

04.09.2020 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Rekstrarafkoma ríkissjóð fyrir A-hluta á fyrri helmingi ársins er neikvæð um 115,422 milljarða. Það eru 37,4 milljarðar umfram áætlun sem gerði ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 55,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins.

Gjöld tímabilsins fyrir fjármagnsliði eru 442 milljarðar króna sem er tæpum 1 milljarði lægra en áætlun gerir ráð fyrir. Ýmsum útgjöldum vegna efnahagsáhrifa Covid-19 hefur verið mætt með auknum fjárheimildum á fjáraukalögum.
Mestu umframgjöld tímabilsins eru í bótum vegna félagslegrar aðstoðar og í sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu, rúmlega 2 milljarðar króna í hvorum málaflokki.

Tekjur af virðisaukaskatti 13 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir

Tekjur tímabilsins án fjármunatekna námu 350 milljörðum króna sem er um 38 milljörðum króna lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Þar af skýrir ákvörðun um aukinn gjaldfrest á skilum opinberra gjalda að 11 milljarða króna skatttekjur sem annars hefðu verið greiddar á fyrri hluta árs falla til síðar. 

Innheimtar tekjur án fjármunatekna námu samtals 349,6 milljörðum króna á meðan áætlanir gerðu ráð fyrir 387,6 milljörðum króna. Mismunurinn nemur 38 milljörðum króna.

Stærstu frávikin eru í tekjuskatti einstaklinga sem er 12 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir og tekjum af virðisaukaskatti sem voru 13,3 milljörðum lægri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Innheimt tryggingagjald er 6 milljörðum lægra en áætlað var. Þessi frávik skýrast að stærstum hluta til með áhrifum af COVID og ýmsum frestunum á tekjum sem leiddi af mótvægisaðgerðum ríkisins samkvæmt mánaðaryfirliti um fjárreiður ríkissjóðs.

Veruleg áhrif veikingar krónunnar

Veiking íslensku krónunnar hafði veruleg áhrif á bæði fjármagnsgjöld og fjármunatekjur á tímabilinu. Fjármagnsgjöld námu 56,9 milljörðum króna samanborið við 28,1 milljarð kóna í áætlunum og fjármunatekjur námu 32,8 milljörðum króna samanborið við áætlun upp á 3,6 milljarða króna. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld samtals voru neikvæð um 24,1 milljarð króna samanborið við áætlun upp á neikvæða 24,4 milljarða króna.

Útgjöld til fjárfestinga fimm milljörðum innan heimilda

 

Þá hækkaði staða langtímalána um 92 milljarða króna frá árslokum 2019 og nam 843 milljörðum í lok júní. Afborganir lána voru 65 milljarðar á fyrri hluta árs. 

Fjárfesting tímabilsins var rúmir 13 milljarðar sem er um 5 milljörðum innan heimilda. Þar af eru framkvæmdir Vegagerðarinnar 2 milljörðum innan áætlunar og bygging nýs sjúkrahúss um einum milljarði.