Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sex grunuð um mútur og peningaþvætti í Samherjamálinu

03.09.2020 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd/Geir Ólafsson - RÚV
Sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja, þeirra á meðal forstjórinn, hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn Héraðssaksóknara á ætluðum mútum, peningaþvætti og fleiri brotum félagsins sem tengjast Namibíustarfsemi þess.

Héraðssaksóknari hefur engar upplýsingar viljað veita um gang rannsóknarinnar frá því að hún hófst undir lok síðasta árs, í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kveiks og fleiri miðla.

Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr rannsóknin að ætluðum brotum á hegningarlagaákvæðum um mútugreiðslur til embættismanna og starfsmanna fyrirtækja, peningaþvætti og ákvæðum auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að sexmenningarnir sem hafa stöðu sakbornings séu Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri félagsins, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna Bryndís Baldvins McClure, lögfræðingur Samherja, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari sem einnig var framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu.

Sexmenninganir voru allir yfirheyrðir af Héraðssaksóknara vegna málsins í sumar, samkvæmt heimildum fréttastofu.