Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir danskt njósnahneyksli snerta Íslendinga beint

03.09.2020 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Hneykslismál sem umlykur dönsku leyniþjónustuna snertir Íslendinga með beinum hætti sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og vísaði til þess að leyniþjónusta danska hersins veitti bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum. Sæstrengir sem tengja Ísland við umheiminn fara um danskt yfirráðasvæði. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að Íslendingar hafi verið sofandi þegar kemur að netöryggismálum.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum í dag. Smári tók til máls og vísaði til hneykslismála í Danmörku. Þar hefur komið í ljós að leyniþjónustan safnaði meiri upplýsingum en hún mátti og upplýsti ráðamenn ekki að fullu um störf sín. Núverandi og fyrrverandi yfirmenn voru látnir víkja vegna málsins.

Öll fjarskipti undir

Smári sagði að leyniþjónusta danska hersins hefði veitt bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum í Danmörku svo þeir gætu „stundað sínar víðtæku netnjósnir á öllu mannkyninu með töluvert skilvirkari hætti en hefur verið til þessa“. Smári sagði að þetta væru óþægilegar fréttir. „Þetta snertir Íslendinga með beinum hætti.“ Öll fjarskipti Íslendinga fara í gegnum þrjá sæstrengi sem allir liggja um danskt yfirráðasvæði. „Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.

Íslendingar verða að vita hvað er í gangi sagði Smári og benti á að Bandaríkjamenn hefðu ítrekað njósnað um bandamenn sína. „Það væri barnalegt af okkur að halda að þeir myndu hlífa okkur eitthvað sérstaklega.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
 Mynd: RÚV

Ekki nógu vakandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að málið væri alvarlegt. Hann kvaðst hafa verið í samskiptum við norræna starfsbræður sína og kvaðst myndu funda með þeim á næstu dögum. Þar verður málið tekið upp. „Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að mér finnst við ekki vera nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Íslendingar væru eina ríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem ekki tækju þátt í setri um netöryggismál í Tallinn og eina norræna ríkið sem ekki tæki þátt í sambærilegu setri í Helsinki.

Guðlaugur Þór benti á að sérstaklega væri tekið á þessu í nýlegri skýrslu sem Björn Bjarnason skrifaði fyrir Norðurlandaráð um verkefni þess. „Ég þarf ekki að taka fram að það hefur enginn komið til mín, hvorki frá því landi sem þingmaður nefndi né öðrum til að fá leyfi hjá mér til að njósna um Íslendinga.“

Smári lýsti vonbrigðum með að lítið hefði farið fyrir utanríkispólitík í svari ráðherra. „Hann vildi ekki einu sinni nefna Bandaríkin á nafn og svaraði engu um hans álit á þessum njósnum annað en að þetta væri alvarlegt.“ Smári sagði að hugsanlega væri verið að að njósna um fjarskipti allra Íslendinga og annarra landa. „Þetta er alvöru þjóðaröryggismál.“

Guðlaugur Þór tók undir að þetta væri þjóðaröryggismál. „Mér finnst við hafa verið nokkuð sofandi, við Íslendingar, þegar kemur að þeim málum.“ Heimurinn er að breytast og öryggismál eru ekki bara þau sömu og við þekkjum frá fyrri áratugum, sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði ekki lítið mál að leggja til að Íslendingar tækju þátt í alþjóðlegu samstarfi um varnir í netöryggismálum.