Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rússar vísa á bug öllum ásökunum

03.09.2020 - 11:57
epa08251815 Kremlin spokesman Dmitry Peskov visits the Dream Island amusement park ahead of its upcoming inauguration in Moscow, Russia, 27 February 2020. The amusement park is scheduled to open on 29 February 2020.  EPA-EFE/SHAMIL ZHUMATOV / POOL
Dimitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Engin ástæða er til að kenna rússneskum stjórnvöldum um veikindi stjórnarandstöðuleiðtogans Alexeis Navalnys. Þetta sagði Dimitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, á fundi með fréttamönnum í Moskvu í morgun, um þá fullyrðingu Þjóðverja að Navalny hefði verið byrlað eitur.

Navalny liggur á sjúkrahúsi í Berlín. Hann var fluttur þangað frá Rússlandi eftir að hafa veikst hastarlega. Þýska stjórnin lýsti því yfir í gær að eitrað hefði verið fyrir Navalny með novichok, sama efni og beitt var gegn rússneska leyniþjónustumanninum fyrrverandi Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi fyrir tveimur árum. 

Dimitry Peskov varaði í morgun Vesturveldin við því að hrapa að ályktunum og fella dóma eða grípa til refsiaðgerða sem hann teldi enga ástæðu til. Rússnesk stjórnvöld vildu sjálf komast til botns í þessu máli. Enginn hefði haft hag af því að eitra fyrir þessum helsta andstæðingi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta.

Á Vesturlöndum gerast kröfur um nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum æ háværari og var áhrifa þess að gæta á rússneskum fjármálamarkaði í morgun þegar gengi rúblunnar lækkaði enn gagnvart evru og dollara. Það sem af er ári hefur gengi rúblunnar gagnvart þessum gjaldmiðlum fallið um tuttugu prósent einkum vegna kórónuveirufaraldursins og lækkunar á olíuverði.