Ríkisstjórnin ekki að leggja til frestun launahækkana

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin er ekki að leggja það til að samningsbundnum launahækkunum verði frestað, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun. Hún svaraði þar spurningu formanns Samfylkingarinnar um yfirlýsingar formanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um hvort að rétt væri að fresta launahækkunum í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu hvort það hefði verið rætt í ríkisstjórn, eða af forystumönnum stjórnarflokkanna, að fresta launahækkunum. Logi vísaði til orða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtölum um að fresta kjarasamningsbundnum launahækkunum.

Katrín sagði að þetta hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn. Hins vegar hefði þetta verið rætt af hálfu annarra aðila á fundi þjóðhagsráðs í gær þar sem sitja fulltrúar ríkisstjórnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Katrín sagði að þetta samtal færi ekki fram nema við samningaborðið og væri þá hluti af stærri heildarmynd. Ríkisstjórnin vinnur ennþá samkvæmt yfirlýsingum sínum í tengslum við gerð lífskjarasamninga, sagði Katrín. „Ég ítreka það að þarna er ríkisstjórnin ekki að leggja neitt til.

Logi sagði að það væri ekki eins og hver önnur Facebook-færsla þegar formenn tveggja stjórnarflokka kæmu fram með slíkar yfirlýsingar. „Það gerist vart í tómarúmi.“ Hann sagði að það ætti sérstaklega við núna þegar ríkið sé komið með stóran hluta atvinnulífsins í fangið. Hann spurði hvort að það væri afstaða ríkisstjórnarsamningar að ýta lífskjarasamningum til hliðar. Katrín sagði að svo væri ekki. Þvert á móti væru mörg mál ríkisstjórnarinnar í meðförum þingsins eða á leið inn í þingið sem byggja á lífskjarasamningi.

Katrín sagðist hafa það fyrir sið að tjá sig ekki um það sem ráðast ætti við samningaborðið. „Ég ætla ekki að stíga inn í þær viðræður sem eiga heima við samningaborðið en ekki hjá mér.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi