Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Óvissustig og viðbúnaður vegna veðurspár

03.09.2020 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna norðan hríðar sem spáð er að gangi yfir stóran hluta landsins í kvöld. Hjá Vegagerðinni og raforkufyrirtækjunum er fylgst grannt með þróun mála og sérstök vakt til taks ef á þarf að halda.

Það er enn í gildi gul og appelsínugul veðurviðvörun allt frá Ströndum, austur um og á Suðausturlandi. Verst er spáin fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi, en þar spáir norðan hvassviðri eða stormi og búist við snjókomu til fjalla. Í morgun lýsti Ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi í samráði við Lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi. Og það er víða viðbúnaður. Búast má við að færð spillist á fjallvegum og ísing myndist á raflínum sem hæst liggja.

Tvær háspennulínur vaktaðar hjá Landsneti 

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að þar hafi verið farið vel yfir málin og fundað hafi verið með veðurfræðingi til að meta hvar vandræði gætu skapast. „Í þessu veðri sem spáð er á föstudaginn þá eru einn til tveir staðir sem við erum sérstaklega að vakta. Það er Vopnafjarðarlína sem liggur nokkuð hátt, þannig að þar er möguleiki að geti orðið nokkur slydduísing seint í kvöld og fram á föstudag. Við erum líka að vakta Bakkalínu frá Þeistareykjum. Þar gæti mögulega orðið einhver ísing, en varla samt í þeim mæli að það verði einhver truflun af því.“

Óttast ekki ísingu á línur hjá Rarik

Steingrímur Jónsson, deildarstjóri netrekstrar hjá Rarik á Norðurlandi, segist ekki óttast ísíngu á línum í þeirra kerfi. Þær liggi almennt það lágt í landinu. Þó fylgist þeir vel með þróuninni og eru með vakt ef til þarf að taka.

„Maður verður að reikna með því versta“

Hjá Vegagerðinni er sömuleiðis viðbúnaður og Þórólfur Jón Ingólfsson hjá Vegagerðinni Húsavík segir menn tilbúna þar ef spáin rætist. „Já, við erum svona á tánum yfir þessu og búnir að undirstinga bíla og verktaka að vera tilbúnir í fyrramálið ef ellt fer á versta veg. Svo veltur þetta bara á því hvoru megin hitastigið er, hvort þetta er vatn eða snjór. En maður verður að reikna með því versta, að þetta verðir snjór, og vera tilbúinn að taka á því.“

Bændur smala fé af mesta hálendinu

Eins og fram hefur komið hafa margir sauðfjárbændur, sem eiga fé á hálendi, áhyggjur af kindum sínum þar. Margir flýttu göngum þar sem það er hægt. Þannig fóru bændur sem eiga fé á Þeistareykjaafrétti af stað í morgun, einnig bændur í Mývatnssveit og bændur austur í Fljótsdal. Þeirra markmið er fyrst og fremst að ýta fénu niður af mesta hálendinu þar sem búast má við snjókomu. Bændur í Húnavatnssýslum hafa verið í göngum síðan á sunnudag og leggja nú allt kapp á ná fénu niður áður en óveðrið bestur á þar á hálendinu.