Norræn velferð vörn í COVID kreppu

03.09.2020 - 17:55
Fánar norðurlanda
 Mynd: Norðurlandaráð
Norðurlöndin hafa ekki farið eins illa út úr efnahagskreppunni vegna COVID-19 og flest önnur Evrópuríki, segir í frétt frönsku AFP-fréttastofunnar í dag. Landsframleiðsla hafi dregist saman um 15 prósent á evrusvæðinu en mun minna á Norðurlöndunum samkvæmt tölum Eurostat, Hagstofu ESB.

 

Skjót og markviss viðbrögð

Viðmælendur AFP-fréttastofunnar segja að skjót og markviss viðbrögð stjórnvalda einkenni viðbrögð Norðurlandanna þegar á heildina sé litið. 
Samdrátturinn í efnahagslífinu á öðrum ársfjórðungi er þó víðast meiri en dæmi eru um á síðari tímum, hann var á milli 6,3 og 8,2 prósent að Íslandi undanskildu, þar dróst hagvöxtur saman um 9,3 prósent.

Ísland háð ferðaþjónustu

AFP-fréttastofan hefur eftir sænska hagfræðingnum Andreasi Wallström að það sé vegna þess að efnahagur á Íslandi sé háðari ferðaþjónustu en annars staðar gerist á Norðurlöndum. Fréttastofan hefur einnig eftir Ernu Björgu Sverrisdóttur, aðalhagfræðingi Arion-banka, að fá lönd séu jafn háð ferðaþjónustu og Ísland.

Umfangsmiklar, skjótar og vel hugsaðar ráðstafanir

Viðmælendur AFP benda á að öll löndin hafi gripið til umfangsmikilla efnahagsráðstafana til að milda áhrif af farsóttinni. Robert Bergqvist hjá SEB bankanum segir að ráðstafanirnar hafi verið skjótar, umfangsmiklar og vel hugsaðar. Aðgerðir sambærilegar við hlutabótaleiðina, frestun skattgreiðslna og önnur ríkisaðstoð hafi almennt skilað sér vel og betur en í mörgum öðrum Evrópuríkjum er haft eftir Jukka Appelqvist hjá Danske bank í Finnlandi.

Velferðarkerfi og góðir innviðir hjálpa

Þá er bent á að velferðakerfi, góður ríkisbúskapur og stærð hins opinbera hjálpist að við að milda áhrif COVID-19 sem og góðir innviðir sem hafi gert fólki auðveldara að vinna að heiman. Einkaneysla hafi ekki dregist mikið saman, fólk hafi haldið áfram að eyða, þannig hafi sala á reiðhjólum og ýmiss konar íþróttaútbúnaði aukist mikið í Noregi, sem og vörur til viðhalds húsa og heimila. 

Mestur samdráttur á Íslandi

En AFP-fréttastofan bendir á að spár geri ráð fyrir að samdrátturinn verði mestur á Íslandi af löndunum fimm á árinu 2020, 8,4 prósent, en á milli þriggja og hálfs og fimm prósenta í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi