Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norðan hvassviðri og snjókoma til fjalla

03.09.2020 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Síðdegis í dag og í kvöld taka gildi gular veðurviðvaranir á Miðhálendinu, Suðausturlandi og á Austfjörðum vegna mikils hvassviðris. Í kvöld tekur svo gildi appelsínugul viðvörun á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Í fyrramálið bætist við gul viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra. Svo lægir smám saman á morgun.

Á þessum svæðum er útlit fyrir norðan hvassviðri 15-23 m/s. Á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og á Miðhálendinu er einnig gert ráð fyrir úrkomu; slyddu og snjókomu. Þar gæti veðrið skapað vandræði fyrir kindur til fjalla. Líklegt er að færð spillist á vegum og ferðalöngum er bent á að huga vel að veðurspám. Á Suðausturlandi má búast við vindhviðum að 30-35 m/s og þar er fólk varað við því að ferðast með aftanívagna. 

Í dag verður rigning víða en þurrt að mestu á Suður- og Vesturlandi. Búast má við vaxandi norðlægri átt 10-18 m/s. Hiti verður á bilinu 4-13 stig í dag en kólnar í kvöld, hlýjast syðst. Svo lægir síðdegis á morgun vestast á landinu og dregur úr vindi, og annars staðar hægist um annað kvöld. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV