Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Morðtilraun við Alexei Navalny og stjórnmál í Bretlandi

03.09.2020 - 10:14
Mynd: AP / AP
Í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1 var rætt um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny, sem liggur fársjúkur á Charité-spítalanum í Berlín. Þýsk stjórnvöld segja hafið yfir allan vafa að veikindi hans séu afleiðingar eitrunar, honum hafi verið byrlað taugaeitrið novichok.

Novichok var þróað og framleitt á rannsóknarstofum í Sovétríkjunum undir lok kalda stríðsins og hefur að minnsta kosti einu sinni áður verið notað gegn andstæðingi Rússlandsstjórnar. Það var þegar reynt var að ráða Sergei Skripal, fyrrverandi leyniþjónustumanna af dögum í Salisbury á Englandi. Hann og Yulia, dóttir hans, lágu um tíma á milli heims og helju en lifðu af. Bresk kona sem einnig komst í snertingu við eitrið lést.

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, og öll þýska stjórnin hafa fordæmt tilræðið við Navalny harðlega og Merkel verið óvenjuhvöss í tali.

Bogi Ágústsson, Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu einnig um bresk stjórnmál. Boris Johnson og ríkisstjórn hans sitja undir ásökunum um stöðugar stefnubreytingar, ein u-beygjan taki við af annarri. Við heyrðum frá orðaskaki Johnsons og sir Keir Starmers, leiðtoga Verkamannaflokksins, í fyrirspurnartíma forsætisráðherra.