Holland og Kanada með í málsókn Gambíu

03.09.2020 - 08:47
Erlent · Afríka · Asía · Gambía · Holland · Kanada · Mjanmar · Evrópa · Norður Ameríka
epa00141657 A security camera looks out over the the Vredespaleis in The Hague, Wednesday 25 February 2004. The International Court of Justice (ICJ) holds its third day of hearings on the barrier Israel is building in the West Bank. It remained calm Wednesday, after Monday and Tuesday saw many people protesting for or against the barrier.  EPA/Robin Utrecht
Friðarhöllinn sem hýsir Alþjóðadómstólinn í Haag. Mynd: EPA - ANP
Holland og Kanada ætla að taka þátt í málsókn Gambíu á hendur stjórnvöldum í Mjanmar vegna ásakana um þjóðarmorð gegn minnihlutahópi Róhingja. Utanríkisráðherrar Hollands og Kanada tilkynntu þetta í sameiginlegri yfirlýsingu í gær.

Í nóvember í fyrra höfðaði Gambía mál á hendur stjórnvöldum í Mjanmar fyrir hönd Samtaka um íslamska samvinnu vegna ofsókna gegn Róhingjum í Rakhine-héraði seinni part árs 2017 sem leiddi til að fleiri en 730.000 Róhingjar flýðu til Bangladess þar sem þeir dveljast í flóttamannabúðum.

Ráðamenn í Gambíu, sem á aðild að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðamorð, sögðu að þeim bæri skylda til að bregðast við til að reyna að koma í veg fyrir þjóðarmorð og draga þá til ábyrgðar sem sekir væru um slíkan glæp.  Stjórnvöld í Gambíu hvöttu alþjóðasamfélagið til að grípa til neyðarráðstafana til verndar Róhingjum.

Utanríkisráðherrar Hollands og Kanada sögðu í gær að málið varðaði alla heimsbyggðina og að ríkin tvö myndu aðstoða við að leysa úr þeim flóknu lagaflækjum sem upp kunni að koma í málsmeðferðinni, ekki síst í málum er sneru að kynferðisofbeldi.

Stjórnvöld í Mjanmar hafa vísað á bug ásökunum um þjóðarmorð og hafa farið fram á það við Alþjóðadómstólinn í Haag að málinu verði vísað frá.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi