
Garðaklaufhali landlægur – „Búið ykkur undir haustið!“
Hann finnst helst í Árbæjarhverfi og leitar oft inn í hús þegar tekur að hausta. „Sem sagt, búið ykkur undir haustið!“ skrifar Erling. Hann segir klaufhalann þó engan skaða. Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að hann nærist helst á rotnandi plöntu- og dýraleifum og sæki í skemmda ávexti. Klaufhalar koma gjarnan saman að næturlagi í æti. Kvendýrin verpa í holu í jörðu á veturna og annast eggin þar til þau klekjast og afkvæmin éta mæður sínar.
Garðaklaufhalinn fannst fyrst í Reykjavík árið 1902 og haustið 2011 fannst verulegur fjöldi þeirra í tveimur aðskildum hverfum í Hafnarfirði, í kjallara í gömlu húsi og í kringum blómapott á verandarpalli.
Á vef Náttúrufræðistofnunar er garðaklaufhölum lýst á eftirfarandi hátt: „Garðaklaufhalar eru auðþekktir frá öðrum skordýrum hér á landi. Þeir eru langir og grannir, misstórir. Höfuð og afturbolur rauðbrún, hálsskjöldur, stuttir yfirvængir og fætur gulir, hálsskjöldur dökkur um miðbikið, þunnir samanbrotnir flugvængir undir yfirvængjum, en fullorðin dýr eru fleyg. Fálmarar eru langir og grannir. Klaufhalar þekkjast auðveldlega á tveim hörðum, sterklegum stöfum (halaskottum) aftur úr bolnum sem eru kræktir á karldýrum en nær beinir á kvendýrum. Ungviði svipuð að sköpulagi en aðeins með litla vængvísa.“