Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fastur í sandi á Haukadalsheiði í þrjá klukkutíma

Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan á Suðurlandi var kölluð út um tíuleytið í gærkvöld vegna skotveiðimanns á þrítugsaldri sem hafði sokkið í sand við Sandvatn á Haukadalsheiði sunnan Langjökuls. Maðurinn var fluttur með þyrlu á bráðamóttöku Landspítalans um þrjúleytið í nótt.

Maðurinn var á gæsaveiðum með félaga sínum sem hringdi í lögregluna. Um það bil þrjátíu björgunarsveitarmenn komu að björguninni en björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni var fyrst á vettvang. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi tók langan tíma að staðsetja manninn og var vandasamt að komast að honum. Sandurinn náði manninum upp að mitti og það var ekki fyrr en þremur klukkutímum eftir að útkallið barst sem tókst að ná honum upp úr sandinum. Því þurfti að gera varúðarráðstafanir við björgunina til að huga að blóðflæði. Manninum heilsast vel. 

Fyrirsögnin var uppfærð. Áður sagði að maðurinn hefði setið fastur í fimm klukkutíma en samkvæmt uppfærðum upplýsingum frá lögreglunni voru klukkutímarnir þrír. Þá fengust uppfærðar upplýsingar um að maðurinn hefði verið á veiðum með félaga sínum en ekki einn síns liðs. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV