Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

4 milljarðar árlega til hlutdeildarlána

Mynd: Birgir Þór Harðarson / Birgir Þór Harðarson
Á Alþingi hefur verið rætt um frumvarp félagsmálaráðherra um húsnæðismál og hlutdeildarlán, sem eiga að auðvelda þeim sem sem ekki hafa miklar tekjur að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Fólk sem hefur ekki átt íbúð undanfarin fimm ár getur líka mögulega fengið slíkt lán. Hægt verður að fá að láni 20% kaupverðs og lánið ber hvorki vexti né þarf að borga af því á lánstímanum.

Sé íbúðin seld, eða í síðasta lagi 25 árum eftir lántöku, þarf að endurgreiða ríkinu lánið og þá sama hlutfall af söluandvirði og fengið var að láni í upphafi, til dæmis séu teknar 8 milljónir í hlutdeildarlán af íbúð sem kostar 40 milljónir í upphafi og hún svo seld á 50 milljónir greiðast 10 milljónir. Þeir sem taka lánið þurfa að leggja til 5%  eigið fé í kaupin. Tekjur einstaklings mega ekki vera meiri en 7.560.000 á ári og hjóna samanlagt 10.560.000 að viðbættri um einni og hálfri milljón fyrir hvert barn fram að tvítugu á heimilinu. Þessi lán eru hluti af framlagi ríkisins í tengslum við lífskjarasamningana.

40 milljarðar á næstu tíu árum

 Áætlað er að um fjórum milljörðum króna verði varið árlega til lána vegna kaupa á  um fjögur til fimmhundruð hagkvæmra íbúða. Það verði þá um 3% allra kaupsamninga og 18% samninga vegna nýrra íbúða. Þetta hlutfall telur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem mun sýsla með hlutdeildarlánin, að sé svo lágt að þau hafi ekki áhrif á fasteignaverð.

Brúa bil og ýta undir hagkvæmari byggingar

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri stofnunarinnar segir að þróunin hafi verið sú að sífellt erfiðara hafi verið fyrir fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn.  Með hlutdeildarlánum til tekjulágra fyrstu kaupenda á bæði að greiða leið þeirra inn á fasteignamarkaðinn og ýta undir byggingu hagkvæmra íbúða segir Anna Guðmunda. Framboð á slíkum íbúðum verði að líkindum það sem ræður því hve margir taki lánin