Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Víðtæk netárás gegn viðskiptavinum Íslandsbanka

02.09.2020 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við tilraunum svikahrappa til að komast yfir bankaupplýsingar á netinu í nafni Íslandsbanka. Í færslu lögreglunnar á Facebook kemur fram að víðtæk netárás hafi staðið yfir í dag og viðskiptavinir Íslandsbanka verið skotmarkið.

Svikahrapparnir hafa sent viðskiptavinum Íslandsbanka póst í nafni bankans og því haldið fram að öryggiskerfi bankans hafi verið uppfært. Því þurfi viðskiptavinurinn að skrá sig inn og uppfæra öryggi reikninga sinna „eftir 2 mínútur til að koma í veg fyrir lokun“.“ Þar fyrir neðan er hnappur til að tengjast. 

Lögreglan hvetur fólk til þess að falla ekki fyrir þessu og gæta að því hvar það setur lykilorðið sitt. 

Björn Berg Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir að netárásin hafi byrjað rétt um klukkan tíu í morgun og enn sé verið að rannsaka málið til hlítar.

Alls hafi ellefu gefið upp notendaupplýsingar sínar. „Í engum tilvikum var þó millifært af reikningum og virðist sem ekki hafi verið náð nægum upplýsingum til að það tækist.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV