
Velja arftaka Shinzo Abe 14. september
Abe tilkynnti fyrir helgi að hann myndi segja af sér embætti af heilsufarsástæðum. Hann hefur þjáðst af sáraristilbólgu síðustu ár og þetta er í annað sinn sem hann segir af sér vegna heilsunnar. Það gerði hann einnig árið 2007, en tók svo aftur við embætti árið 2012 og sagði þá ný lyf halda sjúkdómnum í skefjum. Nú hafa veikindin hins vegar versnað á ný.
Suga líklegasti arftakinn
AFP fréttastofan fjallaði í morgun um þrjá líklegustu arftakana. Yoshihide Suga, einn æðsti embættismaður ríkisstjórnar Japans og náinn ráðgjafi Abe, þykir einna vænlegasti kosturinn enda hefð fyrir því að sá sem gegnir því embætti sé formannsefni. Suga hefur þó ítrekað hafnað því að hann hafi hug á því að taka við af Abe. Nokkrir af valdamestu mönnum flokksins hafa lýst yfir stuðningi við Suga, sem er sagður raunsær og óhlutdrægur.
Almenningur í Japan styður fyrrverandi varnarmálaráðherrann Shigeru Ishiba til formennsku, en hann virðist eiga erfitt með að afla sér stuðnings innan flokksins. Ólíkt Suga hefur Ishiba lýst yfir eindregnum áhuga á stöðunni. Hann laut í lægra haldi þegar hann bauð sig fram gegn Abe árið 2018. Hann hefur setið á þingi í þrjá áratugi og er helst þekktur fyrir að berjast fyrir því að styrkja varnarstöðu Japans.
Fumio Kishida, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, er gjarnan sagður sá arftaki sem Abe myndi sjálfur velja sér. Abe hefur þó ekki lýst yfir stuðningi við neinn arftaka og segist ekki vilja hafa áhrif á formannskjörið. Kishidia hefur ekki farið leynt með áhugann á formennsku og er sagður hafa sterkt bakland innan flokksins.
Búist er við að Japansþing greiði atkvæði 16. september um þann sem flokkurinn velur.