Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Staða kvenna af erlendum uppruna einstaklega slæm

Mynd:  / 
Fólki sem leitar til hjálparsamtaka vegna fátæktar og atvinnuleysis fjölgar svo mjög að samtökin hafa ekki undan að sinna þeim. Mest eykst vandi kvenna af erlendum uppruna.

Verið að keyra starf hjálparstarfsins  í kaf

Mikið hefur fjölgað í hópi þeirra sem leita til hjálparsamtaka. Fjölskylduhjálp Íslands nær vart að anna fjöldanum og þá hefur eftirspurn eftir aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar aukist um rúm 40% á síðustu mánuðum. Vilborg Oddsdóttir er félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

„Við segjum að það sé verið að keyra okkur í kaf, hjálparstarfið, bæði fjárhagslega og okkar starfsmenn. Við erum lítil stofnun og erum nánast ekki að ráða við ástandið eins og það er. Það verður bara að segjast, því miður.“

Stærstur hluti þeirra sem leitar þangað er fólk af erlendum uppruna en atvinnuleysi hjá þeim hópi mælist nú um 19%.  „Þetta er sá hópur sem býr við mestu fátæktina og auk fátæktarinnar er hann tengslalaus. Það er engin frænka eða amma eða mamma sem getur hlaupið undir bagga og lánað fimm þúsund krónur. Það er bara enginn,“ segir Vilborg.

Þá hafi sérstaklega fjölgað í hópi kvenna af erlendum uppruna sem störfuðu í ferðaþjónustunni.  „Það eru konur sem hafa verið herbergisþernur, í móttöku, vinna í eldhúsunum, á veitingastöðunum, á hótelunum, það er þessi hópur, Keflavíkurflugvelli, bara alls staðar. “

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Hafa áhyggjur af haustinu

Nichole Leigh Mosty, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna, segir stöðuna aldrei hafa verið jafn slæma. Mikill fjöldi kvenna leitar til samtakanna. 

„Síðan ég hef verið formaður hef ég ekki tekið við eins mörgum spurningum varðandi atvinnumálin. Það hefur alltaf verið hvernig kemst ég lengra, eða hvernig fæ ég menntun mína metna en núna eru spurningarnar: Hvernig fæ ég atvinnu?“

Vilborg og Nichole segja ljóst að leita þurfi leiða til að koma til móts við þennan hóp. Allt bendi til þess að ástandið versni enn frekar með haustinu. 

„Við vitum að hljóðið það er erfitt hljóð í mörgum og kvíði en fólk ber sig vel. Það vill ekki láta sjá þessa skömm að því líði illa,“ segir Vilborg. 

Nichole segir að konurnar vilji setjast hér að og komast sem fyrst aftur á vinnumarkaðinn.  „Sumar eru mjög áhyggjufullar vegna þess að kostur til þess að flytja heim er heldur ekki í boði vegna COVID og atvinnuleysis og annars sem gengur á í heimalandinu.  Fólk vill setjast hér að. Það er gott að búa á Íslandi og við erum að tala um sterka og flotta hópa af konum sem vilja ekki sitja inni í kerfi, þær vilja vinna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson
Nichole Leigh Mosty, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.