Óvissan mikil og námið gæti orðið erfiðara

Mynd: Edda Borg Helgadóttir / Edda Borg Helgadóttir

Óvissan mikil og námið gæti orðið erfiðara

02.09.2020 - 13:46
Nú eru liðnar um tvær vikur síðan framhaldsskólarnir hófust á nýjan leik. Nýnemar mættu (eða mættu ekki) í nýja skóla í glænýjar aðstæður, aðstæður sem þeir bjuggust ekki endilega við þegar þeir kláruðu sína grunnskólagöngu í vor. Lestin ræddi við Eddu Borg Helgadóttur, nýnema í Verslunarskóla Íslands, um fyrsta skóladaginn á breyttum tímum.

Á nýnemadegi Versló var áætlun skólans um fjarkennslu og staðkennslu kynnt fyrir nemendum. Þau fá að mæta eitthvað í tíma í eigin persónu en stór hluti kennslunnar fer þó fram á netinu. Allir þurfa að halda eins meters fjarlægð og bekkjum er skipt í tvennt á milli kennslustofa. 

Edda Borg segir það mun erfiðara að ætla að kynnast nýju fólki, nú þegar kennsla fer að mestu fram á netinu. Ein vinkona hennar hafi ákveðið að fara í Versló líka, þær séu hins vegar ekki í sama bekk og muna því örugglega lítið sem ekkert hittast í skólanum. Edda þekkir engan í sínum bekk og tækifæri til að kynnast nýjum samnemendum voru lítil sem engin á nýnemadaginn. 

„Við mættum fyrst í íþróttahúsið þar sem var búið að raða upp borðum með miklu bili á milli og ég þurfti að setjast við borð sem var merkt mér. Það var ekki hægt að tala við neinn og allir voru bara í símanum þangað til kynningin byrjaði,“ segir Edda. 

Á kynningunni voru nemendur kynntir fyrir Teams, þeim sagt hvað þeir þyrftu að læra á og kennslufyrirkomulagið útskýrt. Svo fór einn bekkur í einu og lét taka mynd af sér, þau fengu að skoða skólann, í röð með einn metra á milli, og ekki var mikið talað saman. Í kjölfarið var svo bókasala en þar máttu nemendur ekki hópa sig saman. „Þegar við vorum búin að kaupa bækur þá var það bara okei allir heim,“ bætir Edda við. 

Fyrir fram segist hún hafa verið spennt fyrir því að mæta í bekkinn, kynnast fólki og hitta alla, en það sé ekki í boði núna. „Þannig þetta er frekar svekkjandi, ég vona að þetta verði ekki svona lengi.“ Þá verður félagslífið fyrir miklum áhrifum í skólanum, nemendur mega ekki hópast saman á marmaranum og engin böll verða haldin. „Ég hlakka svo mikið til að þetta verði búið, ef þetta verður búið. Ég veit ekkert hvort þetta hætti fljótlega af því það eru alltaf að koma fleiri og fleiri smit og það eru ekki allir að passa sig.“

Þegar Edda ræddi við Lestina var fyrsti skóladagurinn fram undan, hún fékk þó ekki að mæta í skólann þann dag en fékk það tveimur dögum seinna. Þá fékk hún bara að hitta helminginn af bekknum þar sem honum var skipt í tvennt í tvær stofur. Hún segir óvissuna mikla og telur að námið gæti orðið erfiðara, þeim hafi verið sagt að þau þurfi að leggja hart að sér og kröfurnar séu miklar á þeim á þessum breyttu tímum. „Ég er frekar spennt en ég veit ekki hvort það er spenningur eða stress, þetta blandast einhvern veginn saman,“ segir Edda að lokum. 

Viðtalið við Eddu úr Lestinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.